Línuskip Vísis , Páll Jónsson GK og Sighvatur GK, ásamt togskipinu Jóhönnu Gísladóttur GK hafa öll landað góðum afla í Grindavík í vikunni. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi stuttlega við skipstjórana og spurði þá frétta. Létu þeir allir vel af sér og voru ánægðir með aflabrögðin.
Jónas Ingi Sigurðsson, skipstjóri á Páli Jónssyni, sagði að veruleg áhersla væri lögð á að leita að öðru en þorski. „Við erum í reynd alltaf að eltast við annað en þorsk. Það er alls staðar hægt að fá þorskinn. Við vorum með 120 tonn í túrnum eða nánast fullfermi, helmingurinn var þorskur en síðan vorum við með löngu, keilu og fleiri tegundir. Við byrjuðum á að leggja í Grindavíkurdýpinu en vegna veðurs færðum við okkur inn í Faxaflóann, síðan voru þetta tvær lagnir á Eldeyjarbanka og tvær suður á Reykjaneshrygg. Á Reykjaneshryggnum fékkst annað en þorskur og við vorum ánægðir með það. Við erum mjög sáttir við þennan túr. Það gekk í reyndinni allt afar vel,” sagði Jónas Ingi.
Töluvert af loðnu
Togskipið Jóhanna Gísladóttir landaði fullfermi sl. þriðjudag. Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri var ánægður með túrinn ekki síst vegna þess að aflinn var blandaður. „Aflinn er að mestu karfi, ýsa og þorskur og það er jafnt af þessum þremur tegundum. Karfann fengum við mest á Eldeyjarbanka, ýsuna á Flugbrautinni og þorskinn í Kolluál. Við vorum í þrjá sólarhringa að veiðum þannig að þetta gekk bara vel og það var ágætis nudd allan tímann. Það var fínasta veður megnið af túrnum, þó var dálítill kaldi síðasta daginn,” sagði Einar Ólafur.
Sighvatur landaði í gær 107 tonnum. Aðalsteinn Rúnar Friðþjófsson skipstjóri sagðist vera mjög sáttur við veiðina. „Aflinn er blandaður og hann er tekinn í Faxaflóanum, Jökuldýpinu og á Eldeyjarsvæðinu. Veður var heldur leiðinlegt til að byrja með en það rættist úr því þegar á leið. Í aflanum var mest af þorski og það mætti gjarnan vera heldur minna af honum og meira af öðru. Við urðum varir við töluvert af loðnu í túrnum. Við sáum loðnu strax við Staðarberg þegar við fórum út og eins sáum við loðnu á landleiðinni. Það virtist vera töluvert af henni og hún hefur auðvitað áhrif á fiskinn sem við erum að eltast við. Við erum ánægðir með þennan túr, það er varla hægt annað,” sagði Aðalsteinn Rúnar.