„Það er búið að vera bara fínt hjá okkur. Við höfum verið að draga lítið af netum, fimm til sex trossur. Við erum að reyna að vera í um tuttugu tonnum á dag,“segir Sigvaldi Hólmgrímsson, skipstjóri á Jökli ÞH, sem undanfarið hefur verið á veiðum nærri Grindavík.

Heimahöfn Jökuls er Raufarhöfn en togarinn er gerður út af GPG á Húsavík. Sigvaldi segir uppistöðuna í aflanum um þessar mundir vera þorsk auk þess sem um fimmtán prósent séu ufsi.

„Við vorum grunnt á Víkinni, Rifinu og Staðarbrúninni þar sem laxeldið er vestur af Sandvíkinni,“ segir Sigvaldi. Stóri þorskurinn haldi sig grunnt og stutt sé á miðin.

Stóri fiskurinn upp í fjöru

„Það voru sjö mínútur út í fyrstu trossuna,“ segir Sigvaldi sem einnig reynir fyrir sér á meira dýpi til að fá meira af ufsa á. „Við viljum náttúrlega reyna að ná eins og við getum af kvótanum okkar.“

Sigvaldi Hólmgrímsson, skipstjóri á Jökli ÞH. Mynd/Aðsend
Sigvaldi Hólmgrímsson, skipstjóri á Jökli ÞH. Mynd/Aðsend

Sigvaldi segir nokkuð snúið að veiða allan kvótann í öllum tegundum svo vel sé í þeim glugga sem bjóðist. Núna sé alls staðar fljótandi í smáþorski á meira dýpi þegar komið sé niður í 90 plús faðmana.

„Þetta er allt í lagi í janúar. Þá er vænn þorskur líka dýpra. En þegar loðnan er komin þá er allur stóri fiskurinn einhvern veginn kominn upp í fjöru og eftir situr smáfiskurinn á dýpra vatninu. Ef maður er að reyna að djöflast svona þá getur maður fengið svolítið á kjaftinn í smáþorski. Sem er náttúrlega ekki gott fyrir neinn, hvorki fyrir stofninn né okkur,“ segir Sigvaldi.

Keyrt með fiskinn norður

Að sögn Sigvalda reyndu menn að finna ufsa fyrir norðan en þar hafi hann ekki verið að hafa og Jökli þá verið stefnt á þorskinn í Breiðafirði. Og nú sé veitt við Grindavík.

„Við lönduðum síðast á Húsavík en núna í Grindavík og það er keyrt norður með aflann. Það verður að sýna lit í að landa í heimabyggð,“ segir Sigvaldi sem kveðst reikna með að landa áfram blönduðum afla í  Grindavík út apríl. „Ætli það verði ekki grálúða eftir það og svo slippurinn í sumar einhvern tímann.“