„Ég er nú bara að hugsa um að sækja um strandveiðileyfi,“ segir Grétar Einarsson, eigandi Brimsvölu SH, sem bíður nú ævintýri komandi sumars í smábátahöfn Snarfara í Elliðavogi.

Grétar er einn þeirra sem mættir eru á staðinn til að spjalla við félagana og huga að bátum sínum eftir að Snarfarahöfnin var opnuð 1. apríl.

Sumir í Snarfara hafa verið í strandveiðikerfinu og Grétar segir breytingar á því kerfi vera efst á baugi í umræðum í félagshúsinu þar sem menn sitja saman, drekka kaffi og spá í komandi sumar.

Eiginkonan reri frá Arnarstapa

Aðild Grétars að Snarfara hófst árið 1988. Hann segir sig og son sinn, Leif Einar, hafa látið smíða fyrir sig hvor sinn Sómabátinn. Leifur Einar sé á Huldu og ráði yfir kvóta sem hann sæki frá Garði og Sandgerði og sé í strandveiðum frá Arnarstapa á sumrin. Grétar segir þá feðga um skeið báða hafa gert út frá Arnarstapa.

„Og konan mín, Konný Breiðfjörð, gerði ein út fjögur sumur á Arnarstapa meðan ég var í bænum að vinna,“ rifjar Grétar upp. Sem fyrr segir er hann að velta fyrir sér að sækja um strandveiðileyfi fyrir sumarið áður en frestur til þess rennur út 22. apríl. „Þá gætum við konan farið saman dag og dag í sumar og veitt.“

Strandveiðar yfir kaffibollanum

Inni í klúbbhúsinu segir Grétar félagsmenn velta fyrir sér hvenær nánari reglur um strandveiði sumarsins íti dagsins ljós og hvað verði í þeim fólgið. Flestir í þessum hópi séu sammála þeirri breytingu að sá sem fær strandveiðileyfi verði að eiga minnst 51 prósent í bátnum sem hann rær á.

„Það eu náttúrlega helst þeir sem eiga fleiri en einn bát sem eru ósáttir. Sumir þeirra hafa verið að selja frá sér báta vegna þessa,“ segir Grétar.

Það eru því nokkrar hrókeringar að eiga sér stað í smábátaheiminum en Grétar segir þó mannskapinn almennt virðast bjartsýnan á sumarið. „Veðrið getur að minnsta kosti varla verið eins slæmt og í fyrra, ég trúi því ekki.“