Björn Elías Halldórsson, skipstjóri á Stapafelli SH, segir dragnótaveiðina á Faxaflóa í haust hafa gengið framar vonum. Stefnan sé að halda veiðunum áfram þar til lokað verði á þær 20. desember.

„Það er bara búið að vera ævintýramok,“ segir Björn Elías Halldórsson, skipstjóri á Stapafelli SH 26, sem verið hefur á dragnótaveiðum á Faxaflóa frá því 1. september.

„Þetta er níutíu prósent þorskur og svaka fallegur fiskur. Meðalvigtin á honum hefur verið 6,8 til 7 kíló slægður. Það er gríðar gaman þegar það er svona veiði,“ segir Björn. Áfram er opið fyrir dragnótaveiðar á Faxaflóa til 20. desember.

„Faxaflóinn opnaði árið 2020 fyrir báta undir 24 metrum. Þar áður voru þetta bara bátar sem voru með Faxaflóaleyfi sem máttu vera inni í honum,“ útskýrir Björn. Aðspurður játar Björn að þessi góði afli hafi komið honum dálítið í opna skjöldu. „Það hefur komið mér á óvart hvað þessi veiði er búin að tolla lengi, þótt það sé reyndar aðeins farið að draga úr henni,“ segir hann. Framan af hafi aflinn verið 20 til 30 tonn á dag.

Björn Elías Halldórsson skipstjóri.
Björn Elías Halldórsson skipstjóri.

Í skýjunum með skipstjórann

Ekki spillir fyrir að óvenju vel hefur viðrað. „Ég held að hafi verið þrír dagar síðan við byrjuðum sem það hefur verið kaldi. September var besti mánuðurinn af öllu sumrinu,“ segir Björn. Varðandi aflaheimildir nefnir Björn að útgerðin sé með samninga við fiskvinnslur sem leggi til kvóta og landi til þeirra.

„Við lönduðum til Fiskkaupa í byrjun september. Núna höfum við aðallega verið að landa til GPG á Húsavík og verðum eitthvað þar áfram,“ segir Björn. Landað sé í Reykjavík og fiskinum síðan ekið með flutningabílum norður þar sem hann sé unninn áður en hann er fluttur aftur suður í gámum til útflutnings. Verðið fyrir þorskinn segir Björn hafa verið 600 til 700 krónur. „Það er dúndurverð á mörkuðum,“ segir hann. Þannig að þrátt fyrir að dregið hafi úr mokinu verður sex manna áhöfnin á Stapafelli áfram í Faxaflóa. „Við verðum hér á meðan það er veiði og stefnan er að vera fram að lokum. Það eru allir í skýjunum með skipstjórann núna,“ segir Björn og hlær.