Teledyne Gavia ehf. hefur þróað og framleitt þrjár gerðir neðansjávarfara, þar á meðal SeaRaptor sem kemst niður á 6.000 metra dýpi. Tæknin byggist alfarið á íslensku hugviti.

Fyrirtækið hét áður Hafmynd en fékk núverandi nafn árið 2010 þegar alþjóðlega fyrirtækið Teledyne Technologies keypti það. Eitt af neðansjávarförunum sem fyrirtækið framleiðir var notað við leit að fórnarlömbum flugslyssins á Þingvallavatni í vetur.

Teledyne Gavia er um þessar mundir að afhenda viðskiptavinum tvö SeaRaptor neðansjávarför en fyrsta tæki þessarar gerðar var afhent á árinu 2019. Neðansjávarfarið með tilheyrandi búnaði kostar um einn milljarð króna. Það verður væntanlega notað til leitar að fágætum málmum á miklu dýpi í Kyrrahafinu.

Fyrsti báturinn sem fyrirtækið hannaði heitir Gavia. Hann getur verið í nokkrum samsettum einingum og er 2,5-3 metrar á lengd og vegur 70-100 kg. Hann kemst á 1.000 metra dýpi. Bátur af þessari gerð var notaður við leitina á Þingvöllum. Annað neðansjávarfar var notað til þess að ná fórnarlömbum slyssins á land. Það er búið gripörmum og er handstýrt í gegnum kapla úr bátum eða úr landi. Nokkur neðansjávarför þessarar gerðar eru til á landinu og eru meðal annars notuð af köfurum þegar sækja þarf hluti af sjávarbotni eða botni vatns. Gavia neðansjávarfarið er allt annarrar gerðar og er algjörlega sjálfstýrt.

„Við höfum varið núna um 20 árum í það að hanna gervigreind þannig að neðansjávarfarið getur leyst sín verkefni án utanaðkomandi íhlutunar eða stjórnunar. Farið styðst við staðsetningarbúnað, hátíðnitæki og annan hátæknivæddan búnað til að meta fjarlægðir, dýpi og sinna sínum verkefnum,“ segir Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia.

Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia..jpg
Stefán Reynisson, framkvæmdastjóri Teledyne Gavia..jpg

Íslenskt hugvit

Tæknin sem neðansjávarförin byggjast á er að öllu leyti íslensk að uppruna og var þróuð af nýsköpunarfyrirtækinu Hafmynd á sínum tíma. Hafmynd var í eigu Nýsköpunarsjóðs Íslands, nokkurra starfsmanna fyrirtækisins og  Össurs Kristinssonar. Þótt fyrirtækið sé nú alfarið í eigu bandaríska fyrirtækisins Teledyne Technologies fer allt þróunar- og tæknistarf fram á Íslandi. Neðansjávarförin eru framleidd hér á landi en fyrirtækið nýtur góðs af samstarfi við móðurfélagið þegar kemur að sölu- og markaðsmálum. Nær öll framleiðslan er seld úr landi.

Nýjasta neðansjávarfarið í þróunar- og framleiðslulínu Teledyne Gavia kallast Osprey og er því sem næst tilbúið til afhendingar. Það er svipað Gavia að gerð nema hvað ummálið er 324 mm en ummál Gavia er 200 mm. Það er því í raun stærri gerð af Gavia og byggir á sömu hugmynd og er einnig uppbyggt af einingum. Þar sem Osprey er stærra getur það borið öflugri rafhlöður og tæknibúnað og getur sinnt verkefnum sem taka lengri tíma. Gavia getur unnið sleitulaust í 8-16 klukkustundir en Osprey hefur úthald í 24-26 klukkustundir.

„Kaupendahópurinn er þrískiptur. Í fyrsta lagi er það vísindamarkaðurinn, það er að segja háskólar og vísindastofnanir. Háskóli Íslands á til að mynda einn bát. Við höfum selt báta til margra vísindastofnana sem tengjast háskólum og hafrannsóknastofnunum. Annar hópurinn eru landhelgisgæslur og sjóherir sem nota bátana í sprengjuleit og leitarstörf. Í þriðja lagi er það atvinnulífið, það er að segja olíu- og gasiðnaðurinn, vindorkuver úti á sjó og nánast öll mannvirki sem byggð eru úti á hafi. Og nú hefur bæst við nýr geiri sem er djúpsævisrannsóknir í atvinnuskyni,“ segir Stefán.

Nú hafa verið framleiddar þrjár gerðir neðansjávarfara, þar á meðal SeaRaptor sem kemst niður á 6.000 metra dýpi. Aðsend mynd
Nú hafa verið framleiddar þrjár gerðir neðansjávarfara, þar á meðal SeaRaptor sem kemst niður á 6.000 metra dýpi. Aðsend mynd

Kóbalt af hafsbotni

Þar er um að ræða fyrirtæki sem leita að fágætum málmum og steinefnum á sjávarbotni (e. rare earth minerals). Efnin eru meðal annars kóbalt og magnesíum. Kóbalt er lykilhráefni í endurhlaðanlegar liþíum-jóna rafhlöður. Kóbaltnámur heimsins eru við það að tæmast á sama tíma og eftirspurnin eykst hröðum skrefum.  Uppgötvast hefur að í neðansjávareldgosum hafa þessi steinefni myndast og storknað og lagst á hafsbotninn. Um er að ræða hnullunga sem eru ríkir af þessum málmum. Vandinn er sá að þá er yfirleitt að finna á 4.000 metra dýpi eða meira. Teledyne Gavia hefur selt tvö SeaRaptor neðansjávarför til aðila sem eru að hefja leit að þessum málum enda kemst hann niður á 6.000 metra dýpi. SeaRaptor er nýttur til að finna þau svæði þar sem nægilega mikið magn er af þessum málmum til þess að það borgi sig að sækja þá. Önnur fyrirtæki eru að þróa aðferðir til að ná þeim upp af hafsbotni.

Stefán segir að steinefnanám af hafsbotni sé ný grein sem er enn í startholunum. Þau hafsvæði sem ríkust eru talin af málmunum eru í miðju Kyrrahafi á alþjóðlegu hafsvæði. Alþjóðahafsbotnsstofnunin, ein af stofnunum Sameinuðu þjóðanna, hefur gefið út  rannsóknaleyfi til leitar og í framhaldinu er þess vænst að nýtingarleyfi verði gefin út.

Djupfar lætur kannski ekki mikið yfir sér en er þó afar verðmætt og þau best búnu kosta um milljarð króna. Aðsend mynd
Djupfar lætur kannski ekki mikið yfir sér en er þó afar verðmætt og þau best búnu kosta um milljarð króna. Aðsend mynd

„Þetta er svo ný tilkomið og við erum í raun að selja fyrstu tvö SeaRaptor neðansjávarförin sem mögulega verða notuð til þess að leita að svæðum sem eru nægilega gjöful til þess að það borgi sig að sækja málminn. Það verður gríðarlegur kostnaður við að sækja efnin niður á þetta dýpi og í raun ekki búið að útfæra hvernig það verður gert. Þó er iðnaðurinn að horfa til þess að það verði gert með risavöxnum ryksugum. Neðansjávarförin geta greint þessa málma með sónartækjum með mjög hárri upplausn sem sjá hluti sem liggja allt að tíu metrum undir sjávarbotni, skynjurum sem nema segulsvið og með svokölluðum lasermyndavélum sem gera þrívíddarmyndir af ljósmyndum,“ segir Stefán.