„Þetta er búin að vera leiðinda veðurtíð í vetur en báturinn hefur verið að reynast vel. Maður kvartar ekkert. Það hefur komið svona törn inn á milli þar sem hefur verið hægt að gera eitthvað,“ segir Sigurður Henningsson í Grímsey.

Hann gerir út bátinn Björn EA 220 ásamt bræðrum sínum, Jóhannesi og Henning. Báturinn fengu þeir nýjan frá Trefjum í Hafnarfirði síðastliðið haust, og kom hann í staðinn fyrir eldri bát með sama nafni.

„Við höfum nánast bara verið á ufsanum í vetur, leigðum okkur um 300 tonn. Við eigum þá einhver 160-70 tonn eftir, en áttum eitthvað fyrir. En ufsinn er þannig að það verður ekkert gengið að honum vísum. Hann stekkur til, og það er erfitt að átta sig á því hvert hann fer.“

Ufsann hafa þeir oftast náð í stutt frá Eyjunni.

„Svo fer að líða að því við förum eitthvað lengra. Við fórum í síðasta mánuði fram á 40 faðma hól og 50 faðma hól, það er í áttina að Kolbeinsey. Það reddaði okkur alveg þá.“

Glórulaust með þorskinn

„Þetta er náttúrlega glórulaust með þorskinn, það er ekkert hægt að stunda það, leigan er svo skuggalega há. Það er 500 kallinn og þú ert að fá kannski eitthvað 400 fyrir hann. Það þarf ekkert að vera neitt klókur til að reikna það. Við fáum byggðakvóta en höfum ekkert verið að stressa okkur að taka það fyrr en maður fær eitthvað meira fyrir það. Getum kannski veitt þetta þegar það er stærri fiskur á svæðinu.“

Hins vegar henti það vel að halda áfram í ufsanum meðan gott verð fæst fyrir. Oftast eru þeir að fá um 260 krónur á markaði.

Fleiri á net

„En það eru einhverjir fleiri sem eru að fara meira á net. Þeir eru búnir að fylgjast auðvitað með því hvað við erum að gera á ufsanum og annað. Það hefur enginn nennt að veiða hann þannig. Fyrsta árið sem við fórum á þetta þá var maður bara talinn heimskur að láta sér detta það í hug að gera út á ufsa. Þá vorum við að fá 120 kallinn fyrir kílóið, en við vorum líka að taka tíu tonn á dag. En núna í dag er staðan allt önnur, það eru bara 40-50 tonn og það eru eins og 100 tonn fyrir 2-3 árum miðað við verðið.“

Bræðurnir gera samtals út þrjá báta og tóku við útgerðinni af föður sínum, Henning Jóhannessyni, sem um árabil var með útgerðina Borgarhöfða í Grímsey.

„Við vorum alltaf með tvo línupunga, og vorum þá að stokka upp í landi með 24 bala og þetta var bara ekkert að borga sig miðað við beitukostnað og stokkeríið í kringum þetta. Það eru kannski 7-8 manns að stokka upp línu. En það verður alla vega eitthvað eftir af þessu.“

Bræðurnir Henning, Jóhannes og Sigurður Henningssynir við bátinn þegar hann kom nýr til þeirra síðastliðið haust. Aðsend mynd
Bræðurnir Henning, Jóhannes og Sigurður Henningssynir við bátinn þegar hann kom nýr til þeirra síðastliðið haust. Aðsend mynd

Létu grásleppuna eiga sig

„Við höfum alltaf farið á grásleppuna á þessum þremur, þegar við vorum á gamla Birninum, en þessi er það stór að hann fær ekki að fara á grásleppu. Við höfum verið á Kópaskeri í mars og apríl á grásleppu en ákváðum að sleppa því núna. Þetta er bara lélegt verð núna og léleg veiði. Maður er að heyra þessi háu verð úti í Noregi og svo eru þeir að bjóða einhvern 190 kall fyrir þetta og allt hefur hækkað, olíukostnaður og allt í kringum þetta. Ef það er ekkert út úr þessu að hafa þá er ekkert gaman að fara á þetta. Það er erfitt að fá mannskap líka á þetta, það veit enginn hvað hann er að fara út í.“