Innflutningur á þorski til Noregs hefur aukist mikið og sérstaklega á síðasta ári. Aukningin stafar að stærstum hluta frá innflutningi á þorski frá Rússlandi. Í frétt Eyjafretta.is segir að rússnesk skip séu undanþegin hafnbanni í Noregi þar sem þau landi talsvert miklu af fiski sem fer til vinnslu og útflutnings.

„Þetta er auðvitað umdeilt í ljósi innrásar Rússa í Úkraínu og viðskiptaþvingana og stöðu Norðmanna gagnvart þeim málum. Á eftir olíu og korni, er fiskur þriðji verðmætasti vöruútflutningsflokkur Rússa. Á árinu 2023 voru alls 98.000 tonn af fiski – öllum tegundum – flutt inn frá Rússlandi til landa Evrópusambandsins,“ segir í fréttinni.

Rússneskur fiskur sem fluttur er til Evrópusambandsins ber 12% toll og fiskur sem fluttur er til Bretlands ber 35% toll. Þetta kemur fram í umfjöllun norska sjávarútvegsmiðilsins Fiskeribladet. Frá því að innrás Rússa hófst árið 2022 hefur fiskinnflutningur frá Rússlandi til ESB aukist um 19%, skv. heimildum frá norska netmiðlinum Barents Observer. Frá því í mars 2022 til september 2024, hafa lönd ESB flutt inn rússneskan fisk að verðmæti 23,9 milljarða norska króna, það samsvarar tæpum 300 milljörðum ISK. Til samanburðar var verðmæti allra útfluttra sjávarafurða frá Íslandi 353 milljarðar ISK.

Fiskur sem Norðmenn kaupa af Rússum, flytja inn til Noregs og svo aftur út til Evrópusambandsins ber þó engan toll. Norðmenn leggja ekki toll á innflutning frá Rússlandi og njóta svo tollfrelsis við innflutning til ESB. Þau tollafríðindi hafa Norðmenn í gegnum GATT samkomulagið við ESB. Þetta skekkir vissulega samkeppnisstöðu þeirra gagnvart framleiðendum sem starfa innan ESB. Sagt er frá þessu athyglisverða máli á www.eyjafrettir.is.