Sjómannadagurinn er fyrsti sunnudagurinn í júní og hátíðisdagur allra sjómanna. Dagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur 6. júní árið 1938 í Reykjavík og á Ísafirði. Árið 1987 var dagurinn lögskipaður frídagur sjómanna. Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins, segir að það að einni atvinnugrein sé helgaður einn dagur á hverju ári endurspegli mikilvægi sjómennsku í íslensku atvinnulífi í svo langan tíma.

Aríel segir að ákall sjómanna á sínum tíma um dag sem væri helgaður sjómennsku hefði ekki einungis verið til þess að minna á mikilvægi hennar heldur ekki síður einfaldlega til þess að fá frídag. Áður fyrr voru engir lögboðnir frídagar sjómanna nema einungis á aðfangadag jóla. „Og þetta er í raun enn með sama hætti því sjómenn hafa ekki aðra lögboðna frídaga en Þorláksmessudag, aðfangadag jóla og sjómannadaginn. En það tíðkast vissulega hjá flestum útgerðum að hvíla áhafnir yfir áramót einnig,“ segir Aríel.

Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.
Aríel Pétursson, formaður Sjómannadagsráðs.

Varðandi hátíðarhöld næstkomandi sunnudag á höfuðborgarsvæðinu segir Aríel að í fyrra hafi verið bryddað upp á nokkrum nýjungum í hátíðarhaldinu. Hann segir að Landhelgisgæslan hafi ávallt verið virkur þátttakandi í sjómannadeginum, staðið heiðursvörð í minningarathöfn og við hátíðarmessu í Dómkirkjunni. Einnig hefur Gæslan sýnt björgun úr sjó úr þyrlu. Þá bauð Gæslan í fyrsta skipti almenningi upp á siglingu um sundin í varðskipi. Aríel segir að þetta hafi vakið mikla ánægju og eftirspurn eftir að komast með í siglingu mun meiri en hægt var að sinna.

Siglt um sundin

„Landhelgisgæslan ætlar því að fjölga ferðum að þessu sinni og verður varðskipið Freyja í ferðum. Við erum þakklátir Landhelgisgæslunni fyrir að þann vilja sem stofnunin sýnir að kynna almenningi þau öryggistæki og tól sem eru sameigna þjóðarinnar.“

Lagt verður af stað í þessar ferðir frá Norðurkanti í Reykjavíkurhöfn. Fyrsta ferð verður kl. 11 og síðan verður siglt fram eftir degi.

Aríel segir að blessunarlega hafi sjóslysum fækkað gríðarlega á síðustu áratugum og síðustu ár. „Það eru öryggistæki Gæslunnar sem við reiðum okkur á úti á sjó þegar eitthvað kemur upp á. Þar ber hæst að nefna, fyrir utan skipin sjálf, þyrlusveitina. Sjúkrabíl er ekki hægt að aka út að skipi sem er statt á Halamiðum heldur reiðum við okkur á þyrlusveitina. Þetta vill oft gleymast þegar rætt er um fjárveitingar til Landhelgisgæslunnar. Þyrla er lang mikilvægasta öryggistæki sjómanna til þess að geta komist með hraði undir læknishendur. Sjálfur væri ég líklega einungis með níu fingur í stað tíu ef ekki væri fyrir það að ég fékk flutning með þyrlu þegar ég lenti í slysi um borð í Sturlaugi Böðvarssyni AK úti á Halamiðum,“ segir Aríel.