Hafist var handa í gær við að tengja nýjan sjóhreinsibúnað við vatnskerfi landvinnslu Vinnslustöðvarinnar. Tækin eru í gámi sem komið var fyrir á athafnasvæðið fyrirtækisins og verða tekin í gagnið innan tíðar. Þeim er ætlað að breyta sjó í eins hreint drykkjarvatn og unnt er yfirleitt að fá.

„Við leggjum rafmagn að gámnum og tengjum við hann dælur og fleira. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið mál en tekur einhverja daga,“ segir Trausti Hjaltason framkvæmdastjóri þjónustufyrirtækisins Hafnareyrar í Vestmannaeyjum sem sér um framkvæmdina.

Sjó er dælt í öflugt síukerfi í gámnum og þar í gegn kemst einungis vatnssameindin H2O. Eftir í síum verða óhreinindi af öllu tagi, bakteríur, veirur og yfirleitt allt annað en tært vatnið.

Afköst gætu orðið allt að 600 tonnum á sólarhring sem fullnægir þörfum Vinnslustöðvarinnar fyrir vatn til starfsemi sinnar.

Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri VSV, samdi við fyrirtæki í Hollandi um kaup á þremur sjóhreinsigámum og þessi er sá fyrsti sem kemur til landsins. Ísfélagið fær annan gám til sinna þarfa.

Á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar segir að ónefndur gárungi í Eyjum hafi varpað fram þeirri spurningu hvort það væri einungis fyrra þrep í þessu merkilega ferli, að breyta sjó í vatn? Myndi Vinnslustöðin ekki fara alla leið í síðara þrepinu og breyta hreina vatninu í vín?

„Ekkert liggur fyrir í þeim efnum en praktískt gæti það verið þegar mikið liggur við líkt og forðum daga í brúðkaupi í þorpinu Kana í Galíleu. Vínið þraut í veislunni en brúðhjónin voru svo heppin að einn gestanna gat með mætti sínum breytt vatni í vín og þurfti ekki hollenskan græjugám til. Sá hét Jesús sonur Guðs og bjargaði samkomunni.“