60 ár voru liðin í gær frá því að fyrsta fiskiskipið í eigu Síldarvinnslunnar kom nýsmíðað til Neskaupstaðar. Það var Barði NK 120, 264 lesta síldarskip, sem þá lagðist í fyrsta sinn að bryggju í heimahöfn. Segir frá þessu á heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Upphaf útgerðar Síldarvinnslunnar átti sér nokkurn aðdraganda. Árið 1963 hófust umræður um að útvíkka starfsemi Síldarvinnslunnar en til þess tíma hafði fyrirtækið rekið síldarverksmiðju. Í lok árs 1963 barst stjórn fyrirtækisins erindi frá stjórn Samvinnufélags útgerðarmanna um að það aðstoðaði við að útvega fiskvinnslustöð samvinnufélagsins hráefni til vinnslu yfir vetrartímann. Í erindinu var farið fram á að stjórn Síldarvinnslunnar kannaði möguleikann á skipakaupum í þessu sambandi.
Að loknum umræðum um erindi samvinnufélagsins í stjórn Síldarvinnslunnar var tekin ákvörðun um að Síldarvinnslan myndi festa kaup á fiskiskipi sem smíða átti í Austur-Þýskalandi og afhenda í nóvember 1964. Þá tók stjórnin jafnframt ákvörðun um að taka vélskipið Gullfaxa NK á leigu frá áramótum til vorsins 1964 og var honum ætlað að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð samvinnufélagsins.
Ekki voru allir sáttir við að Síldarvinnslan myndi hefja útgerð og rituðu nokkrir útgerðarmenn í Neskaupstað stjórn fyrirtækisins bréf og mótmæltu ákvörðuninni. Kom fram í bréfinu að þeir teldu stjórnina ekki hafa heimild til að taka ákvörðun um skipakaupin. Stjórnin taldi sig hins vegar vera í fullum rétti samkvæmt stofnsamningi félagsins.
Systurskipið Bjartur
Í ágústmánuði 1964 barst stjórn Síldarvinnslunnar bréf frá Nesútgerðinni hf sem gerði út Stefán Ben NK og Hafþór NK en tilgangurinn með útgerð þeirra var ekki síst að afla hráefnis fyrir fiskvinnslustöð samvinnufélagsins. Nesútgerðin stóð höllum fæti og fór hún þess á leit að Síldarvinnslan festi kaup á skipum hennar. Stjórn Síldarvinnslunnar fjallaði um málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri rétt að kaupa skipin en í stað þess var ákveðið að láta smíða annað skip í Austur-Þýskalandi, systurskip þess skips sem þegar var í smíðum.
Undir lok ársins 1964 hélt áhöfn skipsins sem var í smíðum til Þýskalands en skipið hafði fengið nafnið Barði og einkennisstafina NK 120. Þann 20. desember hélt Barði í reynslusiglingu á Elbufljóti og þá vildi ekki betur til en svo að hann lenti í árekstri við stórt flutningaskip og skemmdist töluvert. Óhappið varð til þess að afhendingu bátsins seinkaði og kom hann því ekki til heimahafnar í Neskaupstað fyrr en þann 5. mars árið 1965. Barða var fagnað mjög við komuna og markaði hún þáttaskil í sögu Síldarvinnslunnar.
Strax eftir komu skipsins var hafist handa við að útbúa það til veiða með þorskanót en leggja skyldi stund á þær veiðar þar til síldarvertíð hæfist. Allt gekk samkvæmt áætlun og að nokkrum dögum liðnum var haldið á miðin suður af landinu.
Þegar rúmlega tveir mánuðir voru liðnir frá komu Barða kom systurskip hans í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Það hlaut nafnið Bjartur og einkennisstafina NK 121.