Kvótablað Fiskifrétta kom út í dag í tuttugasta og annað sinn. Í blaðinu er að finna upplýsingar um úthlutun aflaheimilda samkvæmt aflahlutdeild í upphafi fiskveiðiársins 2024/2025 og skiptingu þeirra.

Birtur er listi fyrir kvóta nær allra íslenskra skipa og báta og listi yfir 50 kvótahæstu útgerðir og kvóta eftir heimahöfnum. Fiskistofa hefur úthlutað aflamarki fyrir fiskveiðiárið 2024/2025. Úthlutunin fer fram með sama hætti og áður á grundvelli aflahlutdeilda að teknu tilliti til 5,3% frádráttar fyrir jöfnunaraðgerðir.

Heildarúthlutun Fiskistofu er að þessu sinni 320.000 þorskígildistonn, sem er 17.000 ÞÍG tonnum minna en við úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2023/2024 sem var 337.000 ÞÍG tonn. Úthlutun í þorski er tæp 168.000 ÞÍG en var 166.409 ÞÍG tonn (slægður afli) á síðasta fiskveiðiári. Úthlutun í ýsu er rúm 38.000 ÞÍG og lækkar um 16.000 tonn milli ára. Þá lækkun má rekja til þess að þorskígildisstuðull ýsu lækkaði úr 0,93 í 0,64 á milli ára.

Fimm stærstu í þorskígildum

Árið 2020 nam hlutdeild fimm stærstu útgerða í heildarkvótanum í þorskígildum 31,9%. Þessi hlutdeild hefur farið stighækkandi undanfarin fimm ár. Hún var komin í 35,8% 2023 og á þessu ári er hún 36,8%. 10 stærstu útgerðir eru með 57% af heildarkvótanum en þetta hlutfall var 51,8% árið 2020 og 56,5% á síðasta ári. 20 stærstu útgerðir í heildarkvótanum voru með 71,7% árið 2020 en eru nú með 75,1%.

50 stærstu í þorskígildum

Fimmtíu stærstu útgerðarfyrirtækin fá 91,7% af úthlutuðu aflamarki í þorskígildum sem er sama hlutfall frá í fyrra. Þar trónir efst Samherji Ísland hf. með úthlutun upp á 16.784 tonn, 9,99%, Brim hf. með 11.350 tonn, 6,76%, Ísfélag hf. með 11.080 tonn, 6,60%, FISK-Seafood ehf. með 9.503 tonn, 5,66%, Þorbjörn hf. með 8.737 tonn, 5,20%, Vísir ehf. með 8.644 tonn, 5,15% og Skinney-Þinganes með 7.535 tonn, 4,49%.

Reykjavík með mest

Þrjár heimahafnir skera sig úr eins og undanfarin ár, en skip sem gerð eru þaðan út fá töluvert meira úthlutað í þorskígildum talið en þær hafnir sem á eftir koma. Mest fer til skipa með heimahöfn í Reykjavík, eða 38.238 ÞÍG tonn. Skip með heimahöfn í Grindavík fá úthlut[1]að 37.336 tonnum og Vestmannaeyjar fá úthlutað 30.908 tonnum. Þetta er þriðja kvótaárið í röð sem Reykjavík er með mestu úthlutunina en á nokkurra ára tímabili voru Vestmannaeyjar á toppnum.