Sigurbjörg ÁR, nýtt ísfiskskip Ísfélagsins hf., kom til landsins um helgina eftir talsverðar afhendingartafir. Skipið hefur verið tekið í slipp í Hafnarfirði þar sem það verður botnhreinsað áður en haldið verður á veiðar.

Sigvaldi Páll Þorleifsson, skipstjóri á Sigurbjörgu ÁR, segir skipið hafa farið einstaklega vel með mannskapinn á siglingunni heim frá Tyrklandi sem tók tvær vikur. Það eina sem hafi verið til ama hafi verið miklir hitar í Miðjarðarhafinu. Byggingarlag skipsins dragi mjög úr hreyfingum þess í úfnum sjó og á um 12 mílna meðalkeyrslu var eyðslan í kringum 6 tonn á sólarhring af olíu.

Sigvaldi var fenginn frá Samherja til að stýra nýju ísfiskskipi Ísfélagsins hf. sem kom til landsins um síðustu helgi. Áhöfnin öll, níu manns, var um borð þegar skipinu var siglt frá Istanbul og var komið til Hafnarfjarðar á laugardaginn þar sem það verður botnhreinsað. Ekki er ljóst hvenær skipið heldur til veiða í fyrsta sinn. Sigurbjörg er búin að vera í sjó í næstum eitt ár og því komið að botnhreinsun. Ekkert pláss var laust í slipp í Istanbul til að framkvæma hreinsunina. Það verður því gert í flotkvínni hjá Vélsmiðju Orms og Víglundar í Hafnarfirði.

Sigvaldi Páll Þorleifsson, skipstjóri á Sigurbjörgu ÁR, í brúnni á nýja skipinu. FF MYND/EYÞÓR
Sigvaldi Páll Þorleifsson, skipstjóri á Sigurbjörgu ÁR, í brúnni á nýja skipinu. FF MYND/EYÞÓR

Gott sjóskip

„Þetta voru fimmtán dagar með stoppi á legunni þar sem við fengum olíu og vistir. Þannig að siglingin tók fjórtán daga. Það er 1800 kW MAN vél í skipinu, eins og í Eyjasystrunum. Við sigldum á 11-12 mílum sem er sparnaðarkeyrsla enda lá ekkert þannig á. Við fengum svo brælu þegar við vorum við Portúgal, beint á nefið. Þá fórum við alveg niður 8-9 mílur, 2-3 metra ölduhæð. Hún tók það vel á sig.“

Sigurbjörg ÁR er með svokölluðu Enduro Bow stefni eins og Akurey, Engey og Viðey. Stefni þetta er aðalsmerki í skipahönnun Nautic sem hannaði m.a. Eyjasysturnar og Sigurbjörgu. Sigvaldi er ánægður með byggingarlagið og stefnið geri það að verkum að skipið líður um sjóinn án þess að vart verði högga þótt sjórinn sé úfinn.

„Stefnið gerir gæfumuninn og gerir siglinguna mun mýkri. Auk þess nýtist mjög vel rýmið sem svona stefni býður upp. Stefnið er breitt sem gerir það að verkum að þar er nóg af plássi fyrir til dæmis allar grandaravindur. Ég veit ekki hvort ganghraðinn væri meiri með hefðbundnu stefni en ég er alveg sáttur þennan ganghraða í 48 metra löngum bát.“

Frá Afríku til Íslands

Sigvaldi er Ólafsfirðingur og var á Mánabergi ÓF sem Rammi hf. gerði út. 2004 byrjaði hann á Baldvin Þorsteinssyni EA, uppsjávarskipi Samherja, og var þar háseti, stýrimaður og skipstjóri á skipum Samherja allt þar til hann tók við Sigurbjörgu ÁR. Nú er reyndar óljóst hvað verður um ÁR viðskeytið á nýja ísfisktogaranum því Ísfélagið hefur gefið það út að allri vinnslu verði hætt í Þorlákshöfn og ólíklegt að skipið verði gert út þaðan.

Drónamynd af Sigurbjörgu ÁR 67. FF MYND/JÓN STEINAR
Drónamynd af Sigurbjörgu ÁR 67. FF MYND/JÓN STEINAR

„Það var gott að vera hjá Samherjafrændum. Þeir hugsa vel um mannskapinn. Við höfum lent í alls kyns málum sem gerast til sjós, slysum og uppákomum og þeir standa með sínum mönnum. Ég var búinn að vera úti í tólf ár á skipum Samherja, meðal annars í Afríku á uppsjávarveiðum, að megninu til á hrossamakríl. Það var komið gott af löngum úthöldum og ég fagnaði því þegar Ólafur Marteinsson, [áður forstjóri Ramma hf. og nú framkvæmdastjóri Ísfélagsins] bauð mér að taka við skipinu.“

Áttunda skipið frá Celiktrans til Íslands

Sigvaldi hefur fylgst með smíði skipsins suður í Tyrklandi og undanfarinn mánuð var hann þar áður en siglt var heimleiðis. Auk þess voru tveir eftirlitsmenn allan smíðatímann úti, þ.e. Þórður Þórðarson, sem var áður yfirvélstjóri á Sólbergi ÓF, og Ragnar Aðalgeirsson, útgerðarstjóri. Umtalsverðar tafir urðu á afhendingu skipsins sem rekja má til tafa í aðfangakerfinu og undirverktaka hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni sem er íslenskum skipakaupendum reyndar kunn að góðu einu. Sigurbjörg ÁR er áttunda skipið sem skipasmíðastöðin smíðar fyrir Íslendinga. Fyrir eru í flotanum Akurey RE, Viðey RE, Engey RE, Barði NK, Sigurður VE, Venus NS, Víkingur AK og nú Sigurbjörg ÁR.

Þvermál skrúfunnar í Sigurbjörgu er 3,8 metrar. Sigvaldi segir að meðaleyðsla á siglingunni til Hafnarfjarðar hafi verið í kringum 300 lítrar á klukkustund sem er eins og reiknað sé með.

Rúmgóð brúin í Sigurbjörgu ÁR er búin stórum skjávegg með upplýsingakerfum af ýmsu tagi. MYND/NAUTIC
Rúmgóð brúin í Sigurbjörgu ÁR er búin stórum skjávegg með upplýsingakerfum af ýmsu tagi. MYND/NAUTIC

300 lítra meðaleyðsla

„Þótt langt sé liðið á kvótaárið reynum við að komast sem allra fyrst á veiðar. Það er bara bolfiskur framundan þar til humarveiðar verða leyfðar, hvenær eða hvort sem þær verða leyfðar. Við erum klárir á þrjú troll á humar og í skipinu eru fjórar togvindur frá Ibercisa. Í bolfiski verðum við með tvö troll. Það er því eftirvænting framundan og biðin orðin löng,“ segir Sigvaldi.

Með tilkomu Sigurbjargar ÁR verður Ottó N. Þorlákssyni VE lagt, en hann fór í gagngerar viðgerðir á vél og uppsetningu á spilum 2022. Sömuleiðis verður Fróða ÁR lagt og auk þess fór Múlaberg SI úr rekstri í fyrra en það var næst síðasta skipið af svokölluðum Japanstogurum sem komu til Íslands fyrir hálfri öld. Nú er einungis Ljósafell SU eftir af Japanstogurunum.

Tæknilýsing

Smíðuð hjá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbul

Mesta lengd: 48,10 m

Skráð lengd: 44,43 m.

Aðalvél: MAN 61 27/38 1.795 kW@800 sn./mín.

Skrúfugír: Rentjes SVAL 900-33 með gírhlutfall 6,955:1

Skrúfa: MAN fjögurra blaða, 3.800 mm í þvermál.

Ásrafall: 1.500 kW.

Hjálparvélar: Tvær MAN/Lindenberg 500 kW 1.800 sn./mín.

Bógskrúfa: Brunvoll 340 kW. Þvermál 1.225 mm.

Spilbúnaður: Kemur allur frá spænska framleiðandanum Ibercisa og samanstendur af 4 togvindum, 3 gildavinum, 6 grandaravindum, 2 pokavindum, 8 bakstroffuspilum, 2 akkerisspilum ásamt nokkrum hjálparvindum.

Togvindustjórnun: Frá Scantrol.

Dekk, krani: Gudesan.

Vinnslubúnaður: Frá Klaka hf. Í skipinu er einnig lestarbúnaður frá Klaka en búnaður sem setur afla í lest og landar honum er algerlega sjálfvirkur.

Kælibúnaður: Frá Kælismiðjunni Frosti og samanstendur af lestarkælingu, kælingu á afla í körum á vinnsluþilfari þar sem kældum sjó er hringrásað til að ná sem bestri kælingu aflans áður en hann fer niður í lest. Kerfið framleiðir krapa sem dælt er í fiskikör áður en þau fara að lestinni.

Siglingatæki: Koma öll frá Simberg.

Aflanemakerfi: Frá Marport.