Frystigeymslur Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sem eru þær stærstu á landinu, hafa tekið á móti tæplega 47.600 tonnum af afurðum það sem af er árinu. Heimir Ásgeirsson yfirverkstjóri segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar að þetta sé meira rmagn en í fyrra þegar tekið var á móti 45.000 tonnum allt árið.

1.000 gámar á árinu

„Nú eigum við eftir að taka á móti íslensku sumargotssíldinni en veiðar á henni ættu að hefjast fljótlega. Langmest af fiskinum kemur frá fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en eins höfum við tekið á móti frystum afla frá uppsjávarskipinu Hákoni EA og síðan landar frystitogarinn Blængur NK hjá okkur mánaðarlega. Frystigeymslurnar hér eru hinar stærstu á landinu og rúma á bilinu 18.000-20.000 tonn. Fiskurinn fer frá okkur með tvennum hætti. Annars vegar fer hann í gámum í skip á Reyðarfirði og hins vegar um borð í skip hér í Neskaupstað. Meirihlutinn fer í gámum og yfirleitt fara frá okkur um 30 gámar á viku. Við erum búnir að setja í um 1.000 gáma það sem af er árinu. Staðreyndin er sú að hér er nóg að gera allt árið um kring því hver vertíðin rekur aðra. Það er loðnuvertíð og síðan makrílvertíð og loks síldarvertíðir. Hér hafa menn ekki áhyggjur af verkefnaskorti,“ segir Heimir.