Þegar rúmlega sjö mánuðir eru liðnir af fiskveiðiárinu hefur gengið verulega á aflamark í öllum mikilvægustu tegundum nema ufsa. Þannig standa ekki eftir nema rúm 47 þúsund tonn af þorski óveidd úr 166.270 tonna aflamarki. Fyrir yfirstandandi fiskveiðiár var úthlutað 321 þúsund þorskígildis tonna kvóta og var skerðing í þorski um 11 þúsund tonn en úthlutun í ýsu fór úr 43.000 tonnum í 48.000 tonn.

15.700 tonn eftir af ýsu

Samkvæmt lista yfir heildaraflamarkstöðu frá Fiskistofu þann 3. apríl var eftir að veiða 15.755 tonn af 48.151 tonna ýsukvóta fiskveiðiársins sem með tilfærslu milli ára og sérstakri úthlutun fór í 50.594 tonna aflamarki. Af því höfðu verið veidd rúm 35.000 tonn. Úthlutun í ufsa var 56.551 tonn og í þeirri tegund voru færð rúm 14.000 tonn milli ára auk þess sem sérstök úthlutun nam 1.770 tonnum þannig að aflamarkið er 72.532 tonn. Veiðst höfðu rúmlega 22.700 tonn af ufsa þann 3. apríl síðastliðinn og óveidd eru því 48.300 tonn. Útgerðir leggja enda ofurkapp á það núna að ná sem mest af ufsa en hann er dyntóttur og lætur lítt að stjórn.

Besta loðnuvertíð í manna minnum

Staðan er meira úrlausnarefni fyrir sum sjávarútvegsfyrirtæki en önnur. Eskja á Eskifirði var í 23. sæti yfir kvótahæstu útgerðir landsins í upphafi fiskveiðiársins með 3.500 þorskígildistonn þar af 2.650 tonn í þorski. Þorskinum er skipt út fyrir uppsjávarheimildir en með minnkandi þorskkvóta dregur um leið úr því sem hægt er að skipta út fyrir uppsjávarfisk. Eskja fagnar hins vegar eins og aðrir nýafstaðinni loðnuvertíð og segir Baldur Marteinn Einarsson útgerðarstjóri hana þá bestu í manna minnum.

„Ef menn líta bara á veiðar og veður þá er þetta besta vertíðin í elstu manna minnum. Það hefur sennilega aldrei verið framleitt jafn mikið af hrognum á Íslandi. Tíðin var ekkert spennandi í desember og janúar þegar menn hefðu hugsanlega verið að skaka á trolli en síðan breyttist tíðin algjörlega eiginlega um leið og við tókum nótina um borð,“ segir Baldur.

Sveiflurnar slæmar

Uppsjávarskip Eskju, Jón Kjartansson og Aðalsteinn Jónsson, tóku upp undir helminginn af hrognaloðnunni úr vestangöngunni í Breiðafirði. Í heildina nam afli skipanna tveggja 38 þúsund tonnum. Aðalsteinn landaði fjórum sinnum förmum sem fóru í hrognatöku og Jón þrisvar, alls um 14 þúsund tonnum. Ekki hefur verið slegið á heildarverðmætin enn þá og talsverð óvissa reyndar ennþá með sölu á hrognum.

„Margir myndu sætta sig við það að það yrði alltaf jafn stór kvóti, 300-400 þúsund tonn á hverju ári í stað þess að eina vertíðina væru milljón tonn og ekkert þá næstu. Það var hagkvæmast fyrir okkur út frá markaðslegu tilliti ef við vissum alltaf hver kvótinn yrði á næstu ári,“ segir Baldur.