Heildarafli ársins 2024 var tæplega 994 þúsund tonn sem er 28% minni afli en árið 2023. Uppsjávarafli var 545 þúsund tonn og dróst saman um 42% frá fyrra ári vegna aflabrests á loðnu. Botnfiskafli árið 2024 var 421 þúsund tonn sem er aukning um 4% frá fyrra ári. Þá var flatfiskafli 24 þúsund tonn og skelfiskafli 3.700 tonn. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands sem byggjast á upplýsingum Fiskistofu, útflytjendum afla og frá umboðsmönnum erlendis.

Aflamagn í desember 2024 var rúmt 61 þúsund tonn sem er 32% meiri afli en í desember árið á undan. Botnfiskafli í mánuðinum var 29 þúsund tonn og jókst um 8%. Þar af var þorskaflinn um 16 þúsund tonn, 6% minni en í desember 2023. Uppsjávarafli var 31 þúsund tonn sem er 67% meira en í desember 2023.