Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar þurfa ekki alltaf að fara um langan veg til að sinna sínum rannsóknum. Þeir hafa undanfarið fylgst með miklu lífi í Hafnarfjarðarhöfn. Þar hafa hvalir verið fastir gestir og mikið fuglalíf svo ljóst þykir að í sjónum er æti sem þessar tegundir sækja í. Skipverjar á Bjarna Sæmundssyni lögðu net innan hafnar og í aflanum var meðal annars einn nýjasti landneminn, brislingur sem er uppsjávarfiskur af síldarætt og er nú farinn að hrygna allt frá suðvesturhorni landsins til Vestfjarða.

Jón Sólmundsson fiskifræðingur segir að brislingur gæti allt eins orðið nytjastofn hér við land en hann er nú með öllu ónýttur. Þessu sé þó ekki endanlega hægt að svara því ekki hafa verið gerðar nægilega miklar rannsóknir á þessu sviði.

Jón Sólmundsson fiskifræðingur.
Jón Sólmundsson fiskifræðingur.

Brislingur í net

„Það hefur verið mikið líf hérna við Hafnarfjarðarhöfn. Það voru hvalir hérna á þessum tíma í fyrra og það hafa verið hvalir hérna núna undanfarnar vikur, tveir hnúfubakar sem hafa verið í æti hérna fyrir utan gluggana hjá okkur. Bjarni Sæmundsson kom nýlega úr leiðangri og starfsmenn mældu torfur af fiskum innan hafnar og úti í hafnarmynninu. Þeir lögðu í framhaldinu net með mismunandi möskvastærð og létu liggja í um klukkustund. Þeir fengu m.a. brislinga, smásíld og smáufsa. Það er því hægt að slá því föstu að það er brislingur hérna í Hafnarfjarðarhöfn. Það hefur líka verið mikið fuglalíf hérna í allan vetur."

Hrygning staðfest árið 2021

Brislingur er mjög algeng tegund við strendur meginlands Evrópu og allt suður til Afríku. Umtalsverð veiði er í Norðursjó, Skagerak og í Eystrasaltinu. Sagt var frá því í Fiskifréttum fyrir rétt rúmum tveimur árum að staðfest hefði verið árið 2021 að brislingur hrygndi við Ísland.

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldarætt og verður sjaldnast stærri en 16 sentimetrar. Frá árinu 2017 hefur Hafrannsóknastofnun fengið hann í ýmsum leiðöngrum. Hann hefur veiðst víða fyrir Suður- og Vesturlandi. Jón segir að brislingur blandist gjarnan mikið við smásíld þótt uppeldissvæði smásíldar sé frekar fyrir norðan land. Í Faxaflóa og á Vestfjörðunum haldi brislingur sig gjarnan með smásíld og erfitt getur reynst að greina þessar tegundir í sundur. Þær eru náskyldar og mjög líkar í útliti.

26.000 fiskar í marsrallinu

„Staðreyndin er hins vegar sú að við erum ekki að standa okkur nægilega vel í því að fylgjast með útbreiðslunni. Í haust- og vorröllum okkar fylgjumst við þó með brislingi og höfum verið að fá hann í botnvörpu á hverju ári. Hann fékkst í talsverðum mæli í marsrallinu 2023 og aftur í haustrallinu. Í marsrallinu fengum við reyndar metfjölda eða um 26 þúsund fiska. Mest af honum fékkst úti af Kollafirði í Faxaflóanum og einnig víðar grunnt í Faxaflóa. Röll með botnvörpur eru þó alls ekki hönnuð til að rannsaka uppsjávartegundir eins og brisling. Það er því tilviljunum háð hvort hann komi í veiðarfærin. Þótt við fáum 26 þúsund fiska eitt árið og 100 fiska næsta ár þá segir það ekki endilega mikið annað en að brislingur er hérna við land,“ segir Jón.

Hugsanlega nytjastofn

Einnig er fylgst með því hve víða hann veiðist og litlar breytingar hafi orðið á því síðustu þrjú ár. Brislingur hefur veiðst á um 20 stöðvum frá Ingólfshöfða norður í Ísafjarðardjúp og heldur sig því við suður- og vesturströnd landsins en hans hefur aldrei orðið vart norðan- eða austanlands. Hann veiðist eingöngu innfjarða eða á grunnu vatni. Brislingur hefur einnig komið sem meðafli rækjubáta og í rannsóknum á rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi og fyrir tveimur árum var hann byrjaður að hrygna í Ísafjarðardjúpi. Hann hrygnir einnig grunnt í fjörunum við Suðurland og inni í Faxaflóa á sumrin. Hafrannsóknastofnun stendur vissulega að rannsóknum á uppsjávartegundum en þær fara sjaldan fram inni í fjörðum eða grunnt upp við landið og það má kannski segja að stór rannsóknaskip henti illa til að rannsaka tegundina.

Jón segir hugsanlegt að brislingur við Ísland geti með tímanum orðið nytjastofn en hann er algjörlega ónýttur í dag. Það séu torfur af brislingi við landið en ekki er vitað hve stórar þær eru.

Hlutirnir gerast fyrir utan gluggann

„Það ætti að setja kraft í rannsóknir á þessari tegund því hagsmunirnir gætu verið miklir. Það á bæði við um mögulega nýtingu tegundarinnar og einnig um fæðuvistfræði og skörun við aðrar tegundir. Hvað étur brislingurinn og hverjir éta hann? Það er spurning sem vert væri að svara. En staðan er sú að Hafrannsóknastofnun er mjög bundin í sínum rannsóknum vegna starfsmannafjölda, fjármagns og tíma og það er eiginlega synd hvað stofnunin hefur lítinn sveigjanleika í sínum rannsóknum. Hlutirnir eru að gerast hérna fyrir utan gluggana hjá okkur. Það væri hægt að framkvæma mjög áhugaverðar rannsóknir í Faxaflóa og Kollafirðinum án þess að kosta þyrfti miklu til. Það eru samt ýmsar áskoranir í slíkum rannsóknum ef kæmi til tilraunaveiða því brislingur er oftast blandaður smásíld og öðrum smáfiskum og þarf því að svara ýmsum spurningum áður en hægt sé að slá því fram að nýting á stofninum sé raunhæf. Í fyrsta lagi vitum við ekki magnið og í öðru lagi þá vakna spurningar um meðafla og annað. En við erum augljóslega ekki að rannsaka þetta nægilega mikið,“ segir Jón.

Ragnhildur Ólafsdóttir og Jónbjörn Pálsson rannsaka brisling. Mynd/Jón Sólmundsson.
Ragnhildur Ólafsdóttir og Jónbjörn Pálsson rannsaka brisling. Mynd/Jón Sólmundsson.

Víðáttumikil útbreiðsla

Í grein í Náttúrufræðingnum árið 2021 eftir Jónbjörn Pálsson, Guðjón Már Sigurðsson, Ingibjörgu G. Jónsdóttur, Klöru Jakobsdóttur, Nicholas Hoad, Val Bogason og Jón Sólmundsson er fjallað um brisling sem nýja fisktegund við Íslandsstrendur. Þar er líka að finna lýsingu á tegundinni, útbreiðslu og lífshætti.

Þar segir m.a.: Útbreiðsla brislings er víðáttumikil á landgrunni Evrópu og Norður-Afríku, einkum á minna en 50 m dýpi. Hún nær frá Atlantshafsströnd Marokkós og norður í Norðursjó að strönd suðurhluta Noregs og inn í Eystrasalt. Brislingur finnst allt í kringum Bretlandseyjar og útbreiðslusvæðið teygir sig norður til Færeyja þar sem hann finnst í nokkru magni inni á fjörðum og víkum. Þá finnst hann í Miðjarðarhafi, Adríahafi og Svartahafi. Brislingur getur náð 19 cm heildarlengd, en uppistaðan í afla í Eystrasalti og Norðursjó þar sem brislingurinn er helst veiddur er á bilinu 11,5–14,5 cm á lengd.

Étur egg nytjafiska

Brislingur er torfufiskur sem heldur sig einkum á grunnsævi, oft nærri ströndum og jafnvel í árósum þar sem hann þolir vel seltulítinn sjó, en hann finnst einnig dýpra. Í Eystrasalti heldur hann sig í djúpunum á veturna en heldur síðan grynnra í fæðuleit á sumrin. Hann er oft við fæðuleit nálægt yfirborði á nóttinni en dýpkar á sér á daginn. Fæðan er svo til eingöngu dýrasvif, einkum krabbaflær. Hins vegar er þekkt að á sumum svæðum á ákveðnum árstíma étur brislingur umtalsvert magn af eggjum nytjafiska, svo sem þorsks og skarkola, og hefur hugsanlega áhrif á nýliðun þeirra stofna. Sjálfur er brislingur mikilvæg fæða ýmissa fiska, sjófugla og sjávarspendýra og er hann því þýðingarmikill hlekkur milli svifdýra og dýra ofar í fæðukeðjunni. Brislingur hrygnir mest á 10–20 m dýpi, oftast nærri ströndinni. Hann hrygnir ekki öllum hrognunum í einu, heldur skiptist hrygningin í lotur og getur staðið í nokkra daga eða jafnvel mánuði. Eggin eru sviflæg og kjörhiti fyrir klak er 6-12°C. Hrygning getur farið fram allt árið, en meginhrygningin í Eystrasalti er frá maí og fram í júlí. Við vesturströnd Skotlands fer hrygning fram í febrúar til júlí, en meginhrygningin er í mars til maí.

Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar þurfa ekki alltaf að fara um langan veg til að sinna sínum rannsóknum. Þeir hafa undanfarið fylgst með miklu lífi í Hafnarfjarðarhöfn. Þar hafa hvalir verið fastir gestir og mikið fuglalíf svo ljóst þykir að í sjónum er æti sem þessar tegundir sækja í. Skipverjar á Bjarna Sæmundssyni lögðu net innan hafnar og í aflanum var meðal annars einn nýjasti landneminn, brislingur sem er uppsjávarfiskur af síldarætt og er nú farinn að hrygna allt frá suðvesturhorni landsins til Vestfjarða.

Jón Sólmundsson fiskifræðingur segir að brislingur gæti allt eins orðið nytjastofn hér við land en hann er nú með öllu ónýttur. Þessu sé þó ekki endanlega hægt að svara því ekki hafa verið gerðar nægilega miklar rannsóknir á þessu sviði.

Jón Sólmundsson fiskifræðingur.
Jón Sólmundsson fiskifræðingur.

Brislingur í net

„Það hefur verið mikið líf hérna við Hafnarfjarðarhöfn. Það voru hvalir hérna á þessum tíma í fyrra og það hafa verið hvalir hérna núna undanfarnar vikur, tveir hnúfubakar sem hafa verið í æti hérna fyrir utan gluggana hjá okkur. Bjarni Sæmundsson kom nýlega úr leiðangri og starfsmenn mældu torfur af fiskum innan hafnar og úti í hafnarmynninu. Þeir lögðu í framhaldinu net með mismunandi möskvastærð og létu liggja í um klukkustund. Þeir fengu m.a. brislinga, smásíld og smáufsa. Það er því hægt að slá því föstu að það er brislingur hérna í Hafnarfjarðarhöfn. Það hefur líka verið mikið fuglalíf hérna í allan vetur."

Hrygning staðfest árið 2021

Brislingur er mjög algeng tegund við strendur meginlands Evrópu og allt suður til Afríku. Umtalsverð veiði er í Norðursjó, Skagerak og í Eystrasaltinu. Sagt var frá því í Fiskifréttum fyrir rétt rúmum tveimur árum að staðfest hefði verið árið 2021 að brislingur hrygndi við Ísland.

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldarætt og verður sjaldnast stærri en 16 sentimetrar. Frá árinu 2017 hefur Hafrannsóknastofnun fengið hann í ýmsum leiðöngrum. Hann hefur veiðst víða fyrir Suður- og Vesturlandi. Jón segir að brislingur blandist gjarnan mikið við smásíld þótt uppeldissvæði smásíldar sé frekar fyrir norðan land. Í Faxaflóa og á Vestfjörðunum haldi brislingur sig gjarnan með smásíld og erfitt getur reynst að greina þessar tegundir í sundur. Þær eru náskyldar og mjög líkar í útliti.

26.000 fiskar í marsrallinu

„Staðreyndin er hins vegar sú að við erum ekki að standa okkur nægilega vel í því að fylgjast með útbreiðslunni. Í haust- og vorröllum okkar fylgjumst við þó með brislingi og höfum verið að fá hann í botnvörpu á hverju ári. Hann fékkst í talsverðum mæli í marsrallinu 2023 og aftur í haustrallinu. Í marsrallinu fengum við reyndar metfjölda eða um 26 þúsund fiska. Mest af honum fékkst úti af Kollafirði í Faxaflóanum og einnig víðar grunnt í Faxaflóa. Röll með botnvörpur eru þó alls ekki hönnuð til að rannsaka uppsjávartegundir eins og brisling. Það er því tilviljunum háð hvort hann komi í veiðarfærin. Þótt við fáum 26 þúsund fiska eitt árið og 100 fiska næsta ár þá segir það ekki endilega mikið annað en að brislingur er hérna við land,“ segir Jón.

Hugsanlega nytjastofn

Einnig er fylgst með því hve víða hann veiðist og litlar breytingar hafi orðið á því síðustu þrjú ár. Brislingur hefur veiðst á um 20 stöðvum frá Ingólfshöfða norður í Ísafjarðardjúp og heldur sig því við suður- og vesturströnd landsins en hans hefur aldrei orðið vart norðan- eða austanlands. Hann veiðist eingöngu innfjarða eða á grunnu vatni. Brislingur hefur einnig komið sem meðafli rækjubáta og í rannsóknum á rækju í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi og fyrir tveimur árum var hann byrjaður að hrygna í Ísafjarðardjúpi. Hann hrygnir einnig grunnt í fjörunum við Suðurland og inni í Faxaflóa á sumrin. Hafrannsóknastofnun stendur vissulega að rannsóknum á uppsjávartegundum en þær fara sjaldan fram inni í fjörðum eða grunnt upp við landið og það má kannski segja að stór rannsóknaskip henti illa til að rannsaka tegundina.

Jón segir hugsanlegt að brislingur við Ísland geti með tímanum orðið nytjastofn en hann er algjörlega ónýttur í dag. Það séu torfur af brislingi við landið en ekki er vitað hve stórar þær eru.

Hlutirnir gerast fyrir utan gluggann

„Það ætti að setja kraft í rannsóknir á þessari tegund því hagsmunirnir gætu verið miklir. Það á bæði við um mögulega nýtingu tegundarinnar og einnig um fæðuvistfræði og skörun við aðrar tegundir. Hvað étur brislingurinn og hverjir éta hann? Það er spurning sem vert væri að svara. En staðan er sú að Hafrannsóknastofnun er mjög bundin í sínum rannsóknum vegna starfsmannafjölda, fjármagns og tíma og það er eiginlega synd hvað stofnunin hefur lítinn sveigjanleika í sínum rannsóknum. Hlutirnir eru að gerast hérna fyrir utan gluggana hjá okkur. Það væri hægt að framkvæma mjög áhugaverðar rannsóknir í Faxaflóa og Kollafirðinum án þess að kosta þyrfti miklu til. Það eru samt ýmsar áskoranir í slíkum rannsóknum ef kæmi til tilraunaveiða því brislingur er oftast blandaður smásíld og öðrum smáfiskum og þarf því að svara ýmsum spurningum áður en hægt sé að slá því fram að nýting á stofninum sé raunhæf. Í fyrsta lagi vitum við ekki magnið og í öðru lagi þá vakna spurningar um meðafla og annað. En við erum augljóslega ekki að rannsaka þetta nægilega mikið,“ segir Jón.

Ragnhildur Ólafsdóttir og Jónbjörn Pálsson rannsaka brisling. Mynd/Jón Sólmundsson.
Ragnhildur Ólafsdóttir og Jónbjörn Pálsson rannsaka brisling. Mynd/Jón Sólmundsson.

Víðáttumikil útbreiðsla

Í grein í Náttúrufræðingnum árið 2021 eftir Jónbjörn Pálsson, Guðjón Már Sigurðsson, Ingibjörgu G. Jónsdóttur, Klöru Jakobsdóttur, Nicholas Hoad, Val Bogason og Jón Sólmundsson er fjallað um brisling sem nýja fisktegund við Íslandsstrendur. Þar er líka að finna lýsingu á tegundinni, útbreiðslu og lífshætti.

Þar segir m.a.: Útbreiðsla brislings er víðáttumikil á landgrunni Evrópu og Norður-Afríku, einkum á minna en 50 m dýpi. Hún nær frá Atlantshafsströnd Marokkós og norður í Norðursjó að strönd suðurhluta Noregs og inn í Eystrasalt. Brislingur finnst allt í kringum Bretlandseyjar og útbreiðslusvæðið teygir sig norður til Færeyja þar sem hann finnst í nokkru magni inni á fjörðum og víkum. Þá finnst hann í Miðjarðarhafi, Adríahafi og Svartahafi. Brislingur getur náð 19 cm heildarlengd, en uppistaðan í afla í Eystrasalti og Norðursjó þar sem brislingurinn er helst veiddur er á bilinu 11,5–14,5 cm á lengd.

Étur egg nytjafiska

Brislingur er torfufiskur sem heldur sig einkum á grunnsævi, oft nærri ströndum og jafnvel í árósum þar sem hann þolir vel seltulítinn sjó, en hann finnst einnig dýpra. Í Eystrasalti heldur hann sig í djúpunum á veturna en heldur síðan grynnra í fæðuleit á sumrin. Hann er oft við fæðuleit nálægt yfirborði á nóttinni en dýpkar á sér á daginn. Fæðan er svo til eingöngu dýrasvif, einkum krabbaflær. Hins vegar er þekkt að á sumum svæðum á ákveðnum árstíma étur brislingur umtalsvert magn af eggjum nytjafiska, svo sem þorsks og skarkola, og hefur hugsanlega áhrif á nýliðun þeirra stofna. Sjálfur er brislingur mikilvæg fæða ýmissa fiska, sjófugla og sjávarspendýra og er hann því þýðingarmikill hlekkur milli svifdýra og dýra ofar í fæðukeðjunni. Brislingur hrygnir mest á 10–20 m dýpi, oftast nærri ströndinni. Hann hrygnir ekki öllum hrognunum í einu, heldur skiptist hrygningin í lotur og getur staðið í nokkra daga eða jafnvel mánuði. Eggin eru sviflæg og kjörhiti fyrir klak er 6-12°C. Hrygning getur farið fram allt árið, en meginhrygningin í Eystrasalti er frá maí og fram í júlí. Við vesturströnd Skotlands fer hrygning fram í febrúar til júlí, en meginhrygningin er í mars til maí.