Á fundi Norðmanna og Rússa í Moskvu í dag var ákveðið að auka ýsukvótann í Barentshafi um 25% á yfirstandandi ári, úr 178.000 tonnum í 223.000 tonn. Forsendan fyrir þessari ákvörðun er sú að endurskoðuð aðferð við stofnstærðarmat ýsu leiddi í ljós að hrygningarstofn hennar hafði verið stórlega vanmetinn, eins og greint var frá á vef Fiskifrétta fyrir skömmu.
Í frétt á vef norska sjávarútvegsráðuneytisins segir að það sé einkum mat á magni 9-11 ára fisks sem hafi verið fært upp en þetta sé fiskur sem tekið hafi út mest af vexti sínum og því sé ekki eftir neinu að bíða að veiða meira.