Að meðaltali borða Íslendingar fisk sem aðalrétt um tvisvar sinnum í viku. Ýsa er vinsælasta tegundin á borðum landsmanna og er neytt um einu sinni í viku, en næst á eftir er þorskur.
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Matís með niðurstöðum úr rannsókn sem sett var upp með það að markmiði að kanna neysluvenjur og viðhorf tengd sjávarfangi hjá Íslendingum á aldrinum 18-80 ára.
Að jafnaði taka Íslendingar lýsi um fjórum sinnum í viku, en alls tekur um helmingur landsmanna lýsi daglega og 62% þrisvar í viku eða oftar.
Almennt virðast Íslendingar oftar borða ferskan en frosinn fisk og afar lítið er keypt af tilbúnum fiskréttum kældum eða frosnum. Viðhorf til þess að borða fisk eru almennt mjög jákvæð og langflestir telja fisk hollan og góðan. Flestir telja að fjölskylda hafi mest hvetjandi áhrif varðandi neyslu fisks og að rýmri fjárhagur, auðveldara aðgengi að ferskum fiski og meira úrval af fiski gæti haft áhrif til aukinnar fiskneyslu.
Sjá nánar á vef Matís