Slippurinn Akureyri hefur sett á laggirnar vöruþróunarsetur, þar sem sérhæfðir starfsmenn munu vinna að hönnun og þróun margvíslegra tæknilausna í matvælavinnslu. Undirbúningur að stofnun vöruþróunarsetursins hefur staðið yfir í um eitt ár, að því segir í fréttatilkynningu frá Slippnum.

Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins segir nýsköpunar- og þróunarstarf lykilinn að framþróun félagsins á komandi árum. Verkefni vöruþróunarsetursins verði fjölbreytt, sem komi til með að skila afurðum á markað og opna nýjar dyr að frekari verkefnum

Mikilvægi þekkingar og samvinnu

Starfsemi Slippsins hefur tekið verulegum breytingum á undanförnum árum og mikil áhersla er lögð á nýsköpun.

„Starfsfólk Slippsins hefur sýnt og sannað að það er í fremstu röð á sínu sviði í þjónustu við alþjóðlegan sjávarútveg, enda hafa tekjur félagins vegna erlendra verkefna vaxið mjög. Auðvitað munum við áfram leggja ríka áherslu á heildarlausnir í hönnun, þróun og endurnýjun á skipum og búnaði þeirra. Slippurinn er fremsta þjónustustöð skipa á Íslandi og mun vera það áfram. Hérna starfa um 150 manns en einnig erum við í samstarfi við fjölmörg fyrirtæki til þess að geta boðið upp á heildarlausnir í matvælavinnslu. Hraðinn í vöruþróun er mikill og við slíkar aðstæður sannast mikilvægi þekkingar og samvinnu. Vöruþróunarsetrinu er einmitt ætlað að vera öflugur hlekkur í þeirri mikilvægu keðju,“ segir Páll Kristjánsson.

Rökrétt skref

Slippurinn keypti í júlí sl. fasteignir, vélar, tæki og hluta hönnunar Martaks í Grindavík, sem hefur frá stofnun verið leiðandi á sviði tæknilausna fyrir rækjuiðnaðinn og á síðustu árum sinnt sambærilegum lausnum fyrir vinnslu á hvítfiski.

Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri.
Páll Kristjánsson, framkvæmdastjóri Slippsins Akureyri.

„Vöruþróunarsetrið er rökrétt skref í þá átt að sækja fram, enda hefur verkefnum í landvinnslu fjölgað mikið hjá okkur á undanförnum misserum. Ég nefni í þessu sambandi gríðarlega uppbyggingu í fiskeldi víðs vegar um land, sem við munum kappkosta að þjónusta og koma að nýsmíði, sem og í annarri matvælavinnslu. Þegar eru í gangi vöruþróunarverkefni sem lúta að vinnslu á bæði hvítfiski og eldisfiski og í vöruþróunarsetrinu verður meðal annars horft til þess að þróa tæknilausnir Martaks enn frekar sem og að samþættingu vörulína, svo sem hugbúnaðarstýringar og fleira. Við sjáum sömuleiðis fyrir okkur aukið samstarf við frumkvöðla og aðra aðila sem koma að vöruþróun með einum eða öðrum hætti.“

Góð uppskera

Allur vinnslubúnaður Slippsins er markaðssettur undir vörumerkinu „DNG by Slippurinn“ og svo er einnig um framleiðsluna og þjónustuna í Grindavík.

„Opnun vöruþróunarsetursins er risastórt framfaraskref og ég bind miklar vonir við starfsemina, enda hefur öflugur hópur starfsfólks Slippsins lagt mikinn metnað í allan undirbúning. Þetta er lausnamiðaður hópur með fjölbreyttan bakgrunn og ég er ekki í vafa um að uppskeran verður ríkuleg, enda jarðvegurinn frjór,“ segir Páll Kristjánsson framkvæmdastjóri Slippsins í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.