Grásleppuvertíðin hófst 20. mars en ekki er ljóst enn hve margir hafa sótt um leyfi til veiðanna. Örn Pálsson, framkvæmdastjóri Landssambands smábátaeigenda, segir brögð að því að smábátaeigendum gangi erfiðlega að fá menn með sér á veiðarnar. Þar ráði helst afurðaverðin, sem eru fremur lág, og mikið atvinnuframboð annars staðar frá.

Örn hefur þá tilfinningu að ögn minni áhugi sé nú en oft áður fyrir veiðunum. Þar geti spilað inn í að menn telji að afturköllun á vottunum fyrir grásleppuveiðar komi til með að hafa áhrif á verð.

„Á þeim fundum sem við höfum frétt af milli útgerðaraðila og kaupenda hefur það alls ekki verið uppi á teningnum. Okkur sýnist verðin ekki ætla að vera lægri en á síðustu vertíð og við sjáum enga verðlækkun í kortunum. Það er skortur á markaðnum sem ætti að halda verðinu uppi,“ segir Örn.

Útflutningsverðmæti upp á 1,8 milljarð

Veiðar máttu hefjast á fjórum svæðum síðastliðinn þriðjudag, þ.e. í Húnaflóa norður af Horni til Skagatáar, Norðurlandi norður frá Skagatá að Langanesi, Austurlandi frá Fonti á Langanesi austur að Hvítingum og Suðurlandi frá Hvítingum vestur að Garðskagavita. Veiðar í Faxaflóa, Breiðafirði svæði 1  og á Vestfjörðum mega hefjast 1. apríl en ekki fyrr en 20. maí á svæði 2 í innanverðum Breiðafirði. Veiðitímabilið hjá hverjum bát er í upphafi 20 dagar en svo verður tekin ákvörðun um hvort þeim verði fjölgað á grunni niðurstaðna Hafrannsóknastofnunar um næstu mánaðamót um ástand stofnsins.

Í fyrra hófst vertíðin einnig á 20 dögum á bát en þeim var svo fjölgað og alls urðu veiðidagarnir 46.

„Ég hef reyndar oft heyrt um meiri meðafla af grásleppu í þorskanet. Löndunartölur á grásleppu hjá stærri skipum sem fengið hafa hana sem meðafla eru þó lítið eitt hærri en í fyrra,“ segir Örn.

Í fyrra voru alls 250 bátar með virk leyfi. Heildaraflinn var 4.542 tonn eða 18,2 tonn á bát. Aflaverðmætin voru tæpar 900 milljónir króna og útflutningsverðmætin um 1.800 milljónir króna.