Grásleppukarlar á Vopnafirði hafa ákveðið að fresta því að hefja veiðar á grásleppu á þessari vertíð í mótmælaskyni við tilkynningu um lækkun á hrognaverði til sjómanna. Jafnframt skora þeir á aðra grásleppusjómenn að fara að dæmi þeirra og sína samstöðu og hafna þeirri ætlun framleiðenda að gera grásleppu að lágvöruafurð, eins og segir í ályktun frá þeim.

Á vef Landssambands smábátaeigenda kemur fram að grásleppusjómenn á Vopnafirði hafi verið í viðskiptum við Vigni Jónsson hf. á Akranesi sem frá 2013 hafi verið í eigu HB Granda hf.  Fyrirtækið hafi keypt af þeim grásleppuhrogn og frá því markaður opnaðist fyrir grásleppuna til Kína hafi henni verið bætt við. Á miðvikudaginn fyrir páska hafi forsvarsmaður Vignis Jónssonar hf haft samband við grásleppusjómenn og tilkynnti þeim um verðlækkun frá því í fyrra. Verðið er langt undir væntingum grásleppusjómanna. Viðbrögð vopnfirska grásleppusjómanna eru á einn veg að fresta upphafstíma vertíðarinnar um óákveðinn tíma.

Á síðustu vertíð var Vopnafjörður með næst mestan afla allra hafna á landinu. Aflinn var sá mesti í áraraðir, 470 tonn sem jafngilti um 1000 tunnum af fullverkuðum hrognum.  Aflaverðmæti var um 100 milljónir.

Sjá nánar á vef LS.