Veðurstofan bendir á að vonskuveður verður um norðanvert landið næstu daga. Búast má við norðanátt og snjókomu með vindhraða á bilinu 13-20 m/s. Þar sem norðanáttin er langvin má reikna með miklum áhlaðanda sjávar.
Vakin er athygli á þessum á vef Landhelgisgæslunnar. Reikna má með að ölduhæð geti náð 12 metrum norður og austur af landinu og samfara hárri sjávarstöðu gæti það valdið vandræðum á hafnarsvæðum, einkum fyrir norðan. Eru menn hvattir til þess að huga að bátum í höfnum og hafa í huga að ísing getur myndast og hlaðist á báta á skömmum tíma.
Gert er ráð fyrir stormi (meira en 20 m/s) norðvestan til á landinu á morgun miðvikudag og víða um land annað kvöld. Eins gera spár ráð fyrir áframhaldandi stormi á fimmtudag og föstudag með ofankomu fyrir norðan. Sunnan til á landinu verður hvasst og víða mjög hvassar vindhviður við fjöll, en lengst af þurrt og ætti úrkoma þar að vera minniháttar. Frost lengst af 0 til 6 stig.
Mjög slæmt ferðaveður verður því næstu daga og ekki er búist við að veður fari að ganga niður fyrr en seint á laugardag og sunnudag.