„Við náðum að fara nokkurn veginn yfir svæðið allt eins og við ætluðum. Veður var fínt mest allan tímann en það var hafís fyrir vestan sem var aðeins að aftra okkur eins og komið hefur fram,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs hjá Hafrannsóknastofnun.

Ísröndin  hefur frá því að leiðangursskipin voru úti af Vestfjörðum í síðustu viku færst nokkuð nær landinu undan vindum og jafnvel hefur nýr ís myndast í kuldanum sem fylgt hefur norðanáttinni.

Guðmundur segir að nokkrir dagar fari í að fá fram niðurstöðu úr þeim gögnum sem aflað var í leiðangrinum. „Við erum vongóð um að niðurstaðan verði komin í ljós fyrir helgi,“ segir hann.

Vilja leita aftur

Eins og kom fram á vef Fiskifrétta í gær segir Birkir Bárðarson leiðangursstjóri að vegna þess hversu takmörkuð yfirferð hafi náðst fyrir vestan út af hafís verði hugsanlega farið þangað aftur og jafnvel efnt til nýs leiðangurs yfir allt svæðið.

Þetta þýði ekki nauðsynlega að ekki hafi sést nógu mikið af loðnu í nýafstöðnum leiðangri til þess að gefa út kvóta.

„Ég myndi segja þetta líka ef þetta væri á hinn veginn. Ef það er útlit fyrir að við höfum ekki náð utan um allan stofninn þá viljum við fara aftur til að ná utan um hann – hvort sem það verður eitthvað gefið út eða ekki,“ segir Birkir.