Sýnilegur árangur hefur orðið af markaðssamstarfi í kynningu á þorski í Suður-Evrópu sem staðið hefur yfir frá árinu 2013. Guðný Káradóttir, forstöðumaður hjá Íslandsstofu, segir að vitund um uppruna vörunnar hafi aukist nú þegar hún hefur um langt skeið verið kynnt undir einu vörumerki, Bacalao de Islandia.
Í aðdraganda páskanna var viðamikil kynning í smásöluverslunum á Spáni í samstarfi við La Sirena frystivörukeðjuna og einnig á saltfiskmörkuðum í Barcelona í samstarfi við útvatnarasamtökin í Katalóníu.
Þegar rætt var við Guðnýju var að hefjast kynning á íslenskum þorsk á veitingastöðum í Bilbao í Baskalandi. Níu veitingastaðir munu bjóða upp á íslenskan þorsk á matseðli sínum fram til 6. maí. Markmiðið er að treysta tengslin við staðina og kokkana og leggja áherslu á gæði og íslenskan uppruna.
„Samkvæmt rannsóknum sem við gerðum í Barcelona hefur vitund um íslenskan uppruna vörunnar aukist og í auknum mæli er íslenskur þorskur fyrsti valkostur neytenda. Einnig má meta árangurinn af því að nú er sóst eftir samstarfi við okkur um kynningar af þessu tagi. Við höfum til að mynda verið í nokkur ár í samstarfi við bjórframleiðandann DAMM og það mun halda áfram. Munurinn er sá að nú koma íslensku fyrirtækin fram sem ein heild. Það er ekki verið að halda á lofti mismunandi vörumerkjunum heldur er einungis verið að kynna Bacalao de Islandia,“ segir Guðný.
Bein útsending var frá á Facebook í síðustu viku frá Plaza Indauxtu torginu í miðborg Bilbao þar sem kokkar gáfu almenningi kost á því að smakka rétti úr íslenskum saltfiski.
Guðný segir að um langtíma verkefni sé að ræða og fyrirtækin sem eru í samstarfi við Íslandsstofu hafi fullan skilning á því.
Yfir 1.000 kokkanemar fengið kynningu
Einn af lykilþáttum verkefnisins er að heimsækja kokkaskóla og hafa meira en 1.000 nemendur í matreiðslu og veitingageiranum í Suður-Evrópu fengið kynningu á leyndarmálinu á bak við gæði íslenska fisksins.
Mikill áhugi er á kynningarstarfi úti á mörkuðum, að sögn Guðnýjar, einkum í aðdraganda páskanna á Spáni. Staða íslenska þorsksins sé mjög sterk í Katalóníu eins og viðhorfsrannsóknir og sölutölur segja til um. Gott samstarf hefur verið við Útvatnarasamtökin og DAMM og er þetta í þriðja sinn sem samstarfið er undir merkjum Ruta del Bacalao í Barcelona. Þrjátíu veitingastaðir buðu upp á saltfisk og bjór á vægu verði í aðdraganda páskanna auk þess sem Bacalao de Islandia var með smakk hjá tíu aðilum á matarmörkuðum alla laugardaga í mars.
Samstarf Íslandsstofu og aðila í framleiðslu og sölu saltaðra þorskafurða hófst sem fyrr segir árið 2013. Sterkur kjarni fyrirtækja hefur verið með frá upphafi, ávallt í kringum 20 fyrirtæki. Auk framleiðenda og sölufyrirtækja er þjónustufyrirtækjum boðið að taka þátt í verkefninu og hefur Marel nýlega komið til liðs við verkefnið. Þátttakendur eru einnig fyrirtækin Samhentir og Samskip.