Mjög styttist í það að töluverð breyting verði í borgarlandslaginu en nýr innsiglingarviti rís við Sæbraut og verður tekinn í notkun á fyrri hluta næsta árs. Deiliskipulagsvinnu er lokið og Faxaflóahafnir og Reykjavíkurborg hefja innan tíðar vinnu við að ljúka undirbúningsvinnu.

Háhýsi skyggja á
Allt frá árinu 1945 hefur innsiglingarviti í turni Sjómannaskólans þjónað Reykjavíkurhöfn, en með skipulagsbreytingum í Borgartúni hafa risið þar háar byggingar sem skyggja á geisla Sjómannaskólans sem þess vegna þjónar ekki lengur hlutverki sínu. Því rís nýr viti við Sæbraut rétt utan við Höfða, með sama útliti og innsiglingavitarnir sem fyrir eru við Reykjavíkurhöfn . Hann mun tryggja örugga merkingu siglingaleiðarinnar í Gömlu höfninni og í Sundahöfn.

Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, segir að nú sé deiliskipulag loks afgreitt, en verkefnið hefur verið í farvatninu um nokkurra ára skeið.

„Það er verið að undirbúa smíði á vitanum og kaup á ljósbúnaði. Það ætti að klárast á árinu,“ segir Gísli en að nokkrum formsatriðum loknum verða viðræður við borgina um framkvæmdina – útboð fyllingar undir vitann, frágang og kostnað – kláraðar. Því verður verkefninu ekki lokið fyrr en á fyrri hluta næsta árs, töluvert seinna en til stóð.

Nýtt útsýni
Gerð deiliskipulags fyrir strandlengjuna við Sæbraut hefur tafið verkið, en í aðalskipulagi er svæðið sýnt sem opið svæði til sérstakra nota en á slíkum svæðum er gert ráð fyrir útivistariðkun af ýmsum toga og mannvirkjagerð í tengslum við útivist á svæðinu. Því mun svæðið við vitann nýtast sem áningarstaður og útsýnispallur á göngu- og hjólaleiðinni meðfram Sæbrautinni.

Faxaflóahafnir hafa gert það að tillögu sinni að Reykjavíkurborg kosti undirstöðu vitans og pallinn í kringum hann – fyrirtækið sjái hins vegar um vitahúsið og ljósabúnað þess. Kostnaður við þann hluta verksins melur Gísli að verði á milli 25 til 30 milljónir, eins og fram kemur í erindi hans til borgarráðs frá því snemma árs 2015.

[email protected]