Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., segir að fjölmiðlar hafi matreitt niðurstöður úr athugunum Matvælastofnunar að undirlagi stofnunarinnar á hvalveiðum fyrirtækisins síðasta sumar til þess að valda sem mestu uppnámi. Kristján segir reglugerð um velferð dýra sem MAST telji að hvalveiðar falli undir hafi verið smíðaðar fyrir húsdýrahald af ýmsu tagi en ekki sjávarlífverur. Þær eigi alls ekki við um hvalveiðar. Þetta var meðal þess sem kom fram í viðtali við Kristján í kvöldfréttum RÚV og er það í fyrsta sinn sem hann tjáir sig um alvarlegar ávirðingar sem komu fram í nýlegri skýrslu Matvælastofnunnar um hvalveiðar fyrirtækisins síðasta sumar.

Kristján sagði að skýrslan hefði ekki komið sér á óvart. Hún hafi lýst því vel hvernig hvalveiðar fara fram. Hvalveiðimönnum sé uppálagt að skjóta dýr sem verið er að veiða þar til það deyr. Misjafnar aðstæður geti ráðið því hvernig gangi að deyða dýrið, svo sem hvernig það liggi í sjó, sjólagi og fleiri þáttum. Alls kyns aðstæður geti skapast við þennan veiðiskap, sagði hann.

Kristján segir reglugerð um velferð dýra sem MAST telji að hvalveiðar falli undir hafi verið smíðaðar fyrir húsdýrahald af ýmsu tagi en ekki sjávarlífverur.
Kristján segir reglugerð um velferð dýra sem MAST telji að hvalveiðar falli undir hafi verið smíðaðar fyrir húsdýrahald af ýmsu tagi en ekki sjávarlífverur.
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)

Kristján segir að aðstæður sem þessar, þ.e.a.s. þegar langan tíma taki að aflífa dýra, geti gerst við alls konar veiðiskap, eins og t.a.m. á hreindýrum, gæs eða rjúpu. Menn reyni að drepa dýrið strax en hlutir geti farið úrskeiðis. Hann sagði að fyrirtækið væri að reyna að finna nýjar aðferðir og laga núverandi aðferðir til þess að aflífunin gangi sem hraðast fyrir sig.

„En eins og þetta er kynnt er kynnt hjá sjónvarpinu, blöðunum og annars staðar þá er eins og þetta sé normið, sem er engan veginn þannig,“ sagði Kristján.

Hann segir að fram hafi komið í skýrslu Matvælastofnunar að hætt hafi verið við eftirför á einum hval eftir fimm tíma viðureign vegna vélarbilunar. Þetta hafi þó ekki komið fram í samantekt stofnunarinnar sem fjölmiðlar hafi byggt sína umfjöllun á. Þar hafi vantað niðurlagið á því sem hafði gerst.

„Það er að mínu mati vísvitandi unnið að því að sverta sjómenn og okkur af þessu apparati MAST,“ sagði Kristján. Vélarbilunin hafi vissulega komið fram í skýrslu MAST en það lesi enginn þessar 55 blaðsíður sem skýrslan verið heldur einungis samantekt stofnunarinnar.

Kristján var spurður að því hvort Hvalur hf. hagnaðist á hvalveiðunum. Því hafi verið haldið fram að fyrirtækið hafi tapað þremur milljörðum kr. á tíu árum. Á þessum tíu árum hafi hvalveiðar verið stundaðar í fjögur ár. Á þeim sex árum sem hvalveiðar voru ekki stundaðar hafi það tekið MAST þrjú ár að veita Hval hf. vinnsluleyfi. Starfsemin hafi því aldrei komist almennilega af stað.

Kristján sagði að ef skýrsla MAST leiddi til þess að hvalveiðar yrði ekki leyfðar sumarið 2024 yrðu allir veiðimenn landsins að hugsa sinn gang. Þá yrði líka að stöðva hreindýraveiðar, gæsaveiðar og fleiri veiðar.

„Okkar skoðun er sú að reglugerðin er sett í nafni laga um dýravernd sem snýst aðallega um sauðfjárhald og annan búpening, að gefa dýrunum nógu vel að borða og brynna þeim. En hefðbundnar veiðar á villtum fiski eru undanskilin þessum lögum. Þau eiga því engan veginn við um hefðbundnar veiðar á villtum fiski,“ sagði Kristján. Reglugerðin sé því sett í andstöðu við lög í landinu. Í hvalveiðileyfinu, sem byggi á sérlögum um hvalveiðar, sé skrifað niður hvernig skuli staðið að veiðunum.“