Samkvæmt hefð var sumarstopp hjá skipum og vinnslustöðvum Vísis. Sumarstoppið hjá vinnslustöðvunum í Grindavík var frá 9. júlí til 13. ágúst en veiðar skipanna eru fyrst að hefjast af fullum krafti um þessar mundir.

Ísfisktogarinn Jóhanna Gísladóttir GK hóf veiðar strax að stoppinu loknu en línuskipin Páll Jónsson GK og Sighvatur GK hafa verið í slipp og eru fyrst að hefja veiðar í lok þessarar viku. Krókaaflamarksbáturinn Fjölnir GK er líka að hefja veiðar eftir stoppið. Hann er kominn norður til Skagastrandar og mun róa þaðan á næstunni eins og hann hefur áður gert um þetta leyti árs.

Jóhanna Gísladóttir hefur fiskað ágætlega frá því að stoppinu lauk og landaði hún fullfermi á Djúpavogi á laugardag og aftur í dag.

Búast við að stór fiskur fylgi síldinni

„Við höfum nú verið að veiða út af suðausturlandinu og það hefur gengið býsna vel. Aflinn er fyrst og fremst góður þorskur. Í fyrri túrnum var veitt Utanfótar og á Herðablaðinu og í seinni túrnum á Örvæntingunni og Utanfótar. Seinni túrinn var stuttur og við vorum tvo og hálfan sólarhring að veiðum. Ég reikna með að haldið verði til veiða á ný um hádegi en það er verið að skipta um nokkra menn í áhöfninni. Ég á frekar von á því að áfram verði veitt hérna fyrir austan. Það má gera ráð fyrir að fullt af stórum fiski fylgi síldinni þegar hún gengur hér upp að landinu,” sagði Einar Ólafur Ágústsson skipstjóri í samtali við tíðindamann heimasíðu Síldarvinnslunnar.