Vísir hefur gengið frá kaupum á tveimur Flexicut vélum frá Marel. Samningurinn var undirritaður á sjávarútvegssýningunni í Brussel í dag.
FleXicut er tímamótalausn sem valda mun straumhvörfum í hvítfiskvinnslu. Vélin sameinar tvö mikilvæg skref í vinnsluferlinu, að finna beingarðinn og fjarlægja hann af mikilli nákvæmni en auk þess er flakið skorið í hentuga bita, með eða án roðs, samkvæmt óskum viðskiptavinarins.
Fyrsta Flexicut vélin verður sett upp í Vísi í maí og sú seinni verður sett upp síðar á árinu en Vísir hefur í samstarfi við Marel verið að prófa vélina síðan snemma á þessu ári.
“FleXicut er tímamótalausn sem færir hátæknina beint inn í hjarta fiskvinnslunnar sem hefur áhrif á allt heildarferlið,” segir Pétur Pálson framkvæmdastjóri Vísis. “Þetta er eitt stærsta skref sem við höfum séð í átt að sjálfvirknivæðingu í áraraðir.”
FleXicut vélvæðir vinnsluferlið sem gerir það að verkum að afköst, nýting og gæði aukast. Einn stærsti kostur FleXicut er að með vatnsskurði opnast möguleikar á nýjum afurðum sem tryggir að besta nýting næst á hverju flaki. Þetta eykur vöruframboð og tryggir hámarksnýtingu á verðmætu hráefni. Að auki er vélin hagkvæm og auðvelt er að setja hana inn í þau vinnslukerfi sem eru nú þegar fyrir hendi.
“Með tilkomu FleXicut getum við aukið vöruframboð okkar til muna og tryggjum hámarksnýtingu og gæði í hvert sinn sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur,“ segi Pétur.
Nýsköpun sprettur úr samstarfi og það er samstarf Marel við fiskiðnaðinn sem heldur áfram að gegna lykilhlutverki í þróun nýrra lausna fyrir vinnslu á bæði laxi og hvítfiski. „ Ég er sérstaklega ánægður með að við séum að taka þetta stóra skref á árinu 2015 sama ár og Vísir fagnar 50 ára vinnsluafmæli sínu,“ segir Pétur.
“Samstarf við fyrirtæki á borð við Marel skapar mikil verðmæti í fiskiðnaði. Við höfum alltaf unnið vel með Marel og við vorum fullviss um að saman myndum við finna lausn sem mynda mæta öllum okkar þörfum.“