130 af 190 starfsmönnum Vísis hf. í Grindavík, dótturfyrirtækis Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, barst bréf í dag og þeim tilkynnt að þeir falli af launaskrá vegna afleiðinga náttúruhamfaranna í Grindavík.

Í bréfinu, sem birt er á heimasíðu Vísis, segir að starfsmenn sem fari af launaskrá muni njóta úrræða hins opinbera og ekki sé um rof á ráðningasambandi að ræða. Eftir séu 60 manns í ráðningasambandi sem vinni m.a. við saltfiskvinnslu fyrirtækisins í Helguvík.

„Almannavarnir hafa gefið út að núverandi óvissuástand geti staðið fram á sumar 2024. Verklagsreglur Almannavarna hamla því að starfsemi sé haldið úti í bænum að öllu leyti eða hluta. Tekist hefur að hefja starfsemi með saltfisk á tveimur nýjum stöðum en starfsmenn þar eru færri en annars væri og verkefnin hafa breyst. Nánari útfærsla hvað það varðar verður kynnt í vikunni,“ segir í bréfinu.

Þar segir ennfremur að fyrirtækið sé stolt af því að hafa í upphafi hamfaranna haldið öllum á óbreyttum launum þótt fólk kæmist ekki til vinnu. Eins hafi fyrirtækið greitt allan ferðakostnað þeirra sem mættu til vinnu og laun á ferðatíma. Núverandi styrkur stjórnvalda til fyrirtækja í sömu stöðu mæti í hæsta fallli 80% launa. Ljóst sé að náttúruhamförum og afleiðingum þeirra í Grindavík linni ekki á næstunni og hafi Almannavarnir gefið út að núverandi óvissuástand geti staðið fram á sumar 2024. Vísir hf. hafi átt í ítarlegum samskiptum við yfirvöld um afstöðu Náttúruhamfarasjóðs til þess hvað er beint tjón vegna náttúruhamfara og afstaða sjóðsins komi í veg fyrir fleiri tilraunir með rekstur í Grindavík.

„Ákveðið hefur verið að stöðva greiðslur launa til starfsfólks í landi sem ekki er í vinnu frá og með deginum í dag, 6. febrúar 2024. Starfsfólk er hvatt til að sækja beint um greiðslur til Vinnumálastofnunar á grundvelli laga um tímabundinn stuðning til greiðslu launa vegna náttúruhafmara í Grindavík.“