Haustið 2017 bættist ný tegund við hóp þeirra fisktegunda sem fundist hafa innan 200 sjómílna lögsögu Íslands. Það er tegundin brislingur sem er mjög algeng við strendur meginlands Evrópu og allt suður til Afríku. Staðfest er að brislingur hrygndi við Ísland sumarið 2021. Það kann að auka líkurnar á því að þessi smávaxna fisktegund sé að festa sig í sessi í hafinu við Ísland.

Í grein eftir vísindamenn Hafrannsóknastofnunar sem birt er í Náttúrufræðingnum, Tímariti Hins íslenska náttúrufræðifélags, segir að tíminn leiði í ljós hvort brislingur verði nytjategund á Íslandsmiðum og sömuleiðis hver áhrif hans á vistkerfið geti orðið.

Brislingur er smávaxinn fiskur af síldarætt og verður sjaldnast stærri en 16 sentímetrar. Frá árinu 2017 hefur Hafrannsóknastofnun fengið brisling í ýmsum leiðöngrum. Hann hefur veiðst víða fyrir Suður- og Vesturlandi. Í togararalli í mars 2021 veiddist hann í fyrsta sinn í einhverju magni. Alls fengust 375 fiskar á grunnslóð frá Meðallandsbugt til Patreksfjarðarflóa.

  • Eins og hér sést þá þarf þjálfað auga til að greina mun á milli brislings (efri) og smásíldar (neðri). Mynd/Svanhildur Egilsdóttir - Guðrún Finnbogadóttir.

Hrygndi í Ísafjarðardjúpi

„Það er staðfest að brislingur hrygnir hér við land. Þroski kynkirtla þeirra fiska sem veiddust í mars var kominn nokkuð áleiðis og þeir fiskar sem veiddust í haustrallinu höfðu hrygnt. Einnig eru í gangi rannsókn núna í Háskólasetri Vestfjarða í samstarfi við Hafrannsóknastofnun  í tengslum við söfnun á brislingi úr Ísafjarðardjúpi síðastliðið sumar. Niðurstöður þessara rannsókna staðfesta að brislingur hrygndi þar síðastliðið sumar. Okkur finnst því mjög líklegt að þessi tegund hrygni mjög víða við landið,“ segir Jón Sólmundsson fiskifræðingur og einn höfunda greinarinnar í Náttúrufræðingnum

Brislings hefur þó ekki orðið vart fyrir norðan eða austan land og líklegt má telja að það sjórinn þar sé of kaldur hluta ársins. Ekki er ólíklegt að brislingur berist þangað en aðstæður fyrir hann eru hagstæðari fyrir sunnan land og vestan.

Jón segir brisling fremur skammlífa tegund sem lifi yfirleitt ekki lengur en í fimm ár. Hugsanlega verði hægt að tala um hann sem nýjan landnema í vistkerfinu eins og gerðist þegar flundran fór að gera sig heimakæra á Íslandsmiðum árið 1999 og byrjaði fljótlega að hrygna hér og festa sig í sessi. Talið er líklegt að flundra hafi borist hingað frá Evrópu með kjölfestuvatni.

„En varðandi brislinginn finnst okkur líklegast að um hafi verið að ræða eggja- og lirfurek með hafstraumum og þá líklegast frá Færeyjum. Þó er ekki útilokað að rekið komi enn sunnar að, jafnvel frá Hjaltlandseyjum eða Skotlandi.“

Afræningi eggja og lirfa

Umtalsverð veiði er á brislingi í Norðursjó, Skagerak og í Eystrasaltinu. Síðasta áratuginn hafa Færeyingar verið að veiða allt 100 og upp í 1.200 tonn á ári. Færeyingar hafa meðal annars notað brisling í beitu við veiðar á úthafslaxi á flotlínu.

Ólíkt makrílnum, sem líka er tiltölulega ný tegund á Íslandsmiðum og er mikill flökkufiskur, er brislingur staðbundin og heimakær tegund. Það rennir stoðum undir þær hugmyndir að hann hafi borist hingað sem egg og lirfur með hafstraumum frekar en að fullorðnir fiskar hafi synt yfir til Íslands.

  • Jón Sólmundsson, fiskifræðingur. Mynd/Hafrannsóknastofnun

Jón segir landnám nýrra tegunda á Íslandsmiðum megi rekja jafnt til hlýnandi sjávar og hafstrauma. Fyrir utan tegundir eins og flundru, makríl og nú brisling hafa orðið tilfærslur á tegundum á Íslandsmiðum. Of snemmt sé að segja til um það hvort brislingur verði ný nytjategund við Ísland. Það sé þó alls ekki útilokað nái hann að festa sig í sessi. Vissar áskoranir gætu þó fylgt því að nýta brisling því hann er torfufiskur og líklegt að afli úr slíkum torfum yrði yfirleitt blandaðar smásíld. Það sem hafi veiðst í röllum Hafrannsóknastofnunar hafi nær alltaf verið blandað smásíld.

Jón segir að landnám brislings gæti bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á vistkerfið. Þetta er feitur fiskur og góð fæða fyrir aðra fiska, fugla og spendýr. En um leið getur hann verið í samkeppni við smásíld um fæðu. Fæða hans er fyrst og fremst krabbaflær sem er líka fæða smásíldar. Brislingur er líka afræningi á sviflægum eggjum og lirfum, og gæti þannig haft áhrif á þorsk og aðra nytjafiska.