Svo virðist sem hollensku skipasmíðastöðinni Damen hafi tekist að lagfæra mikla galla sem komu fljótlega í ljós eftir afhendingu á dráttarbátnum Magna. Skipasmíðastöðin hefur lengt ábyrgðartíma bátsins um eitt ár og báturinn er því í ábyrgð til loka maí 2023 en auk þess hefur Damen samið um endurkaupaskyldu á bátnum hvenær sem er innan næstu fimm ára.

Gísli Jóhann Hallsson, yfirhafnsögumaður hjá Faxaflóahöfnum, segir augljóst mál að verulegir ágallar hafi verið í frágangi á bátnum af hendi Damen. Faxaflóahafnir hafi greinilega lent á „mánudagseintaki“.

Nýr ábyrgðartími Magna hófst í maí síðastliðnum og gildir til maí 2023. Smíði bátsins var boðin út í september 2018, tilboðin voru opnuð í nóvember og niðurstaðan lá fyrir í janúar 2019. Alls bárust 15 tilboð frá átta bjóðendum  og var gengið að tilboði Damen upp á 7.594.000 evrur, sem samkvæmt þáverandi gengi var nærri 1,1 milljarður ÍSK. Tilboð frá tyrknesku skipasmíðastöðinni Sanmar hljóðaði upp á 7.095.000 evrur. Sanmar kærði ákvörðun Faxaflóahafna að velja tilboð Damen og kærunefnd útboðsmála úrskurðaði í júlí 2019 að Faxaflóahafnir hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup. Nefndin úrskurðaði að Faxaflóahafnir væru skaðabótaskyldar gagnvart Sanmar og bæri auk þess að greiða málskostnað. Að sögn Gísla hefur tyrkneska skipasmíðastöðin ekki farið fram á skaðabætur.

Viðskiptasambandið við Damen hófst með Reykjavíkurhöfn árið 1987, fyrir þann tíma sem Faxaflóahafnir sf. voru stofnaðar. Frá þessum tíma hafa orðið miklar breytingar í sjóflutningum og því talin þörf fyrir fullvaxinn dráttarbát eins og nýjan Magna sem er 32 metra langur með tveimur 3.390 hestafla aðalvélum og 85 tonna togkraft. Þetta tengist ekki síst endurnýjun á flutningaskipaflota þeirra fyrirtækja sem annast sjóflutninga til landsins með mun stærri skipum en áður þekktist. Stærstu skipin höfðu verið 14.500 brúttótonn en eru nú 26.500 tonn.

Bátur nr. 65

Gísli tók þátt í undirbúningi að útboðinu og samningagerðinni um smíðina á Magna. Skrokkurinn var til á lager í Víetnam þar sem Damen er einnig með skipasmíðastöð. Skipasmíðastöðin hófst handa við að innrétta bátinn og setja niður í hann búnað í byrjun mars 2019. Allt eftir skilmálum og þarfalýsingu Faxaflóahafna í útboðinu. Faxaflóahafnir nutu liðsinnis og ráðgjafar Páls Kristjánssonar skipaverkfræðings sem áður starfaði fyrir Lloyd‘s flokkunarfélagið. Fram til þessa hafa fulltrúar Faxaflóahafna og áður Reykjavíkurhafnar ekki sinnt eftirliti á staðnum með smíði sinna dráttarbáta heldur verið viðstaddir togprufur, farið í prufusiglingar og tilfallandi eftirlitsferðir.

„Þetta er bátur númer 65 af þessari gerð. Þess vegna mætti líkja smíðinni við fjöldaframleiðslu þótt bátarnir séu með mismunandi aukabúnaði,“ segir Gísli.

Í útboðslýsingunni var farið farið fram á að Magni yrði undir flokkunarfélaginu Lloyd‘s eins og er um aðra dráttarbáta Faxaflóahafna. Damen smíðar alla sína báta hjá Bureau Veritas flokkunarfélaginu og var Magni því færður frá Bureau Veritas yfir til Lloyd‘s við komuna til Íslands. Gísli segir nokkuð ljóst að eftirlit af hálfu flokkunarfélaganna hafi ekki verið eins og til er ætlast. Hann segir ekki ljóst hver ábyrgð þeirra sé og það hafi ekki verið skoðað í þaula en gerðar hafi verið alvarlegar athugasemdir við þátt flokkunarfélaganna.

Dráttarbátum Faxaflóahafna, hverjum um sig, er að jafnaði siglt um 2.300 mílur á ári. Magna var siglt rúmlega 10.000 sjómílna leið frá Víetnam til Reykjavíkur með viðkomu í Rotterdam. Magna var svo siglt til Íslands og afhentur Faxaflóahöfnum í byrjun mars á síðasta ári í byrjun heimsfaraldursins. Þjálfun áhafnar hófst strax í tveimur þriggja manna hópum. Ekki tókst að ljúka þjálfuninni vegna heimsfaraldursins.

Afrétting véla stóra málið

Fljótlega eftir afhendingu bátsins komu gallarnir í ljós. Í Magna eru tvær ljósavélar frá Caterpillar og gáfu þær frá sér óeðlileg hljóð og titring. Skipt var um eldsneytisdælur og ýmislegt annað og bárust böndin einnig að stjórnkerfi vélanna. Enn er unnið að úrlausn þessara mála. Stærsti ágallinn var hins afrétting beggja aðalvélanna, þ.e.a.s. innbyrðis afstaða vélar, öxuls og skrúfubúnaðar. Framanvert við báðar aðalvélar eru brunadælur. Frá þeim, í gegnum aðalvélina og að skrúfubúnaði gengur öxull og má frávikið í þeirri línu ekki vera umfram 0,08 mm. Þessi lína  var skökk, eða rúmir 8 mm, sem varð þess valdandi að óeðlileg hljóð og titringur var frá vélum. Frávik í dag, eftir afréttingu vélanna er mest 0,03 mm. Þetta eru, að sögn Gísla, hrein smíðamistök hjá Damen en mikil vinna fór í afréttinguna í skipasmíðastöð Damen í Hollandi. Fljótlega eftir komu til Reykjavíkur á síðasta ári kom í ljós að olía, sem tekin var í Singapoor á leiðinni til Reykjavíkur, reyndist óhrein og því þurfti að tæma og hreinsa olíutanka. Prófanir á vélum gefa til kynna að ekki hafi hlotist skemmdir á vélum vegna óhreinnar olíu. Auk þess gleymdist að setja upp loftræstikerfi í brú og fjölmörg önnur atriði voru ekki í lagi.

Þegar allir þessir ágallar komu í ljós hvarflaði það að mönnum hvort viturlegast væri að rifta kaupunum, að sögn Gísla, en það þótti ekki tímabært á þeim tímapunkti. Þess í stað var bátnum siglt aftur til Hollands síðast liðið sumar þar sem Damen réðst í miklar lagfæringar og viðgerðir. Nú hefur Magna því verið siglt um 15.000 sjómílur.

Segir Gísli ekki annað vitað nú en að báturinn sé kominn í lag. Frá því hann var endurafhentur í maí á þessu ári hefur hann þó ekki farið í nema átta verkefni. Þar koma inn í myndina atriði eins og vinnutímastytting, sumarfrí og skortur á þjálfun.