Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirbýr nú innleiðingu á alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna og áformar í því skyni að leggja frumvarp fyrir Alþingi svo unnt verði að fullgilda samþykktina, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu .
Frestur til að koma að umsögnum og ábendingum er veittur til 25. janúar næstkomandi og skulu þær sendar á netfangið [email protected].
Ráðuneytið segir þessi áform kynnt með vísan til samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og stjórnartillagna og reglna um starfshætti ríkisstjórnar.
Á 94. þingi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization) í Genf 6. til 23. febrúar 2006 var gengið frá alþjóðasamþykkt um vinnuskilyrði farmanna og var Ísland meðal þáttakenda á þinginu. Samþykktin felur í sér uppfærðar viðmiðanir alþjóðasamþykkta og alþjóðatilmæla um vinnuskilyrði farmanna auk grundvallarreglna sem er að finna í öðrum alþjóðavinnumálasamþykktum. Breytingar hafa verið gerðar í tvígang á samþykktinni árin 2014 og 2016 og stefnt er að því að innleiða þær samhliða.
Samþykktin sem tekur til farmanna, þ.e. starfsmanna á farþega- og flutningaskipum, og skiptist í fimm kafla:
I. Lágmarkskröfur sem farmenn þurfa að uppfylla til að mega vinna um borð í skipum.
II. Skilyrði fyrir ráðningu.
III. Vistarverur og tómstundaaðstaða. Fæði og þjónusta áhafna.
IV. Heilsuvernd, læknishjálp, velferð og tryggingarvernd.
V. Skyldur um framkvæmd og framfylgd.