Hrefnuveiðar við Ísland hafa gengið vel í sumar og hafa tæplega 50 dýr verið skotin það sem af er vertíðinni. Hrefnuveiðibáturinn Hrafnreyður KÓ, sem Hrefnuveiðimenn ehf. gera út, hefur verið afkastamestur og hafði hann veitt 35 dýr þegar síðast fréttist. Þá hafa tveir aðrir bátar á vegum fyrirtækisins veitt hvor sína hrefnuna.

Að auki hefur báturinn Hafsteinn SK, sem er Hrefnuveiðimönnum ehf. óviðkomandi, veitt 10 dýr í sumar.

Gunnar Begmann Jónsson framkvæmdastóri Hrefnveiðimanna ehf. segir í viðtali við Fiskifréttir að félagið áætli að veiða 60 dýr á yfirstandandi vertíð og vísar til þess að það sé sá fjöldi sem innanlandsmarkaðurinn fyrir hrefnukjöt þoli. Hrefnuveiðimenn ehf. reka eigin kjötvinnslu þar sem aflinn er unninn í neytendaumbúðir.

Meðalstór hrefna gefur af sér um eitt tonn af kjöti og segir Gunnar að vinnsluverðmæti  kjöts af 60 dýrum sé rúmlega 80 milljónir króna.

Ef bætt er við kjötinu af þeim hrefnum sem Hafsteinn SK hefur veitt og mun veiða í sumar má ætla að heildarvinnsluvirði hrefnukjöts á vertíðinni slagi hátt í 100 milljónir króna.

Sjá nánar um umfjöllun um hrefnuveiðar og -vinnslu í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu.