Vinnsla hófst hjá Þorbirni á þriðjudag við pökkun á saltfiskafurðum og frágangi til útflutnings. Þá hefur Vísir hf. í Grindavík sem upp eina vinnslulínu í fiskmjölsverksmiðju Síldarvinnslunnar í Helguvík þar sem lögð verður áhersla á saltfiskafurðir.

Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis, var staddur inni í Helguvík þegar náðist í hann. Þar var unnið að því að koma upp vinnslulínu fyrir saltfiskafurðir. Almannavarnir veittu leyfi fyrir flutningnum á sunnudag svo honum yrði lokið áður en íbúar fengu að vitja heimila sinna sl. mánudag. Einnig voru fluttar til Helguvíkur afurðir sem höfðu verið unnar áður en bærinn var rýmdur.

„Við ætlum að hefja vinnslu við eina saltfiskvinnslulínu hérna einhvern næstu daga. Hérna er mannskapurinn allur að vinna í því að koma þessu upp,“ segir Pétur.

Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmadstjóri Vísis.
Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar, og Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmadstjóri Vísis.

Hann segir að margir Grindvíkingar hafi sett sig niður í Reykjanesbæ eftir rýmingu Grindavíkur. Hann lítur þannig á að fyrirtækið sé að færa sig á milli hverfa og hugur sinn standi til þess að sveitarfélögin verði sameinuð í eitt sveitarfélag, Suðurnes. Hugsunin sé líka sú að flutt verði gamla hverfið, Grindavík, þegar aðstæður leyfa. Þar er ein tæknilegasta bolfiskvinnsla landsins, ekki síst með tilliti til vinnslu ferskfisks til útflutnings.

10-12 manns við pökkun

„Við fáum að byrja einhverja vinnslu í Grindavík og að fara með starfsmenn þangað, ekki marga reyndar, en allt er þetta í rétta átt,“ segir Gunnar Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjarnar.

Það sem liggur fyrir að gera strax er að pakka saltfiskafurðum og ganga frá þeim til útflutnings. Að öðrum kosti hefði þurft að flytja afurðir í miklu salti annað til að sinna þessu verkum. Nú þurfi ekki að flytja allt saltið með afurðunum til þess að ganga frá þeim til pökkunar og það muni miklu. Gunnar segir að afurðunum verði pakkað og þær sendar jafnóðum frá Grindavík og segir hann þetta góð tíðindi. Að jafnaði voru við vinnu 20-25 manns áður en bærinn var rýmdur en Gunnar á von á því að 10-12 manns verði við pökkunina næstu daga.

„Svo gætum við hugsanlega bætt við þann hóp ef allt gengur vel,“ segir Gunnar.

Lítið slegið af í veiðum

Á meðan engin vinnsla hefur farið fram í Grindavík hefur lítið verið slegið af í veiðum. Frystitogararnir Tómas Þorvaldssson og Hrafn Sveinbjarnarson eru sjálfum sér nægir um allt og landa afurðum sem eru tilbúnar til útflutnings. En góð veiði hefur líka verið hjá ísfisktogaranum Sturlu GK og sömuleiðis línuskipinu Valdimar GK. Hefur Þorbjörn átt í góðu samstarfi við Hafnarnes í Þorlákshöfn, Saltver í Keflavík og Fiskkaup í Reykjavík um vinnslu á fiski í nóvember og desember. Aukaafurðir eins og ufsi, keila og karfi hafa að mestu verið boðnar upp á fiskmörkuðum.

Gunnar segir að nú verði aftur leitað á náðir þessara fyrirtækja um samstarf. Þá yrði væntanlega mest um að ræða frágang á vöru til útflutnings. Þessi fyrirtæki og fleiri, sem hafa verið að þjónusta sömu viðskiptavini og Þorbjörn á erlendum mörkuðum, hafi líka tekið við fiski frá Þorbirni til eigin vinnslu. „Aðstaðan við höfnina er alveg þokkaleg held ég, en það þarf að þétta hitaveitulagnir. Það hefur ekki verið litið á þær frá því fyrir jól og í raun veit enginn hvaða staða er á þeim því íbúðarbyggðin hefur haft forgang. Ákveðið var að láta aðrar lagnir ganga fyrir. Það er kalt í vinnsluhúsunum og við erum að reyna að frostverja þau. Slagurinn stendur dálítið um það líka,“ segir Gunnar.