Síldarvinnsla hófst að nýju í fiskiðjuveri HB Granda á Vopnafirði um klukkan 4 í nótt eftir að Ingunn AK hafði komið til hafnar fyrr um nóttina með um 750 tonna afla. Síldin er fersk og af góðri stærð eða rúmlega 300 grömm að jafnaði, að sögn Magnúsar Róbertssonar, vinnslustjóra, í frétt á heimasíðu fyrirtækisins .
Ingunn AK var við síldveiðar í Breiðafirði um helgina og fékkst þessi afli í einu kasti. Faxi RE er nú á miðunum en alls kom um 2.800 tonna viðbótarkvóti í hlut HB Granda eftir að sjávarútvegsráðherra ákvað að auka við kvótann. Að sögn Magnúsar dugar þetta magn til þess að halda uppi vinnslu í fiskiðjuverinu í sjö til níu daga.
Að lokinni vinnslu á síldinni verður væntanlega hugað að loðnu fyrir norðan land en samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar er talið óhætt að heimila veiðar á 200 þúsund tonnum af loðnu. Svo er fyrirhugað að meta ástand stofnsins að nýju í byrjun næsta árs og vonast menn til að niðurstöður þeirrar rannsóknar leiði til þess að hægt verði að auka enn frekar við kvótann.