Það styttist í að Hákon ÞH, nýtt uppsjávarskip Gjögurs hf., komi til landsins þótt ennþá sé talsverð vinna eftir í skipinu og ljóst að það missir af loðnuvertíð verði þá einhver loðna veidd.

Hákon ÞH 2, uppsjávarskip Gjögurs.
Hákon ÞH 2, uppsjávarskip Gjögurs.

Skipið var dregið frá skipasmíðastöð Karstensens í Gdansk á laugardag og til skipasmíðastöðvar fyrirtækisins í Skagen í Danmörku. Áætluð afhending er í apríl á næsta ári. Skrokkurinn var smíðaður hjá Karstensens í Póllandi og sjósettur í október síðastliðnum.

Hellingur eftir

„Lestarnar eru nánast tilbúnar, skrúfa og stýri eru komin og búið er að hífa vél, gír og ásrafal. En það á eftir að ganga frá þessu, þar á meðal ljósavél. Þannig að uppistöðu er skipið bara hrár skrokkur ennþá að innan,“ segir Freyr Njálsson sem fylgir smíðinni eftir fyrir hönd Gjögurs.

Kvöldmyrkið rammar inn Hákon ÞH.
Kvöldmyrkið rammar inn Hákon ÞH.

Það á því eftir að draga rafmagn í skipið, innrétta það og gera margt annað. En sem fyrr segir á að afhenda það í lok apríl á næsta ári en upphaflega stóð til að það yrði afhent á vordögum 2025. Gjögur og Skinney-Þinganes, sem er að láta smíða systurskip Hákons, skiptust á samningum og færðist þá afhending Hákons fram um eitt ár og seinkaði um eitt ár hjá Skinney-Þinganesi. Þetta hentaði jafnt báðum fyrirtækjum.

Hákon eldri til sölu

Skipið er 75,4 metrar á lengd og 16,5 metrar á breidd. Lestarnar eru búnar kælitönkum sem taka um 2.400 rúmmetra af fiski og sjó. Aðalvélin er frá Wärtstilä og aflið er 5.200 kW. Skrúfan er fjórir metrar í þvermál. Hákon EA, sem nýja skipið leysir af hólmi, var smíðaður í Chile 2001 eftir teikningum Nautic. Hann er nú til sölu.

Þannig hvíldi hann tignarlegur við bryggju í Skagen.
Þannig hvíldi hann tignarlegur við bryggju í Skagen.