Fyrirtækið Nofir í Bodø í Noregi hefur sérhæft sig í endurvinnslu á netadræsum og vinnur úr þeim fínasta þráð sem meðal annars er notaður til framleiðslu á bikini baðfötum, sokkum og gólfteppum.

Fyrirtækið safnaði í fyrra næstum 4.000 tonnum af dræsum en af því voru um 150 tonn nýtileg í framleiðsluna.

Nofir á og rekur verksmiðju í Litháen þar sem unnið er úr hráefninu áður en það er sent til Slóveníu þar sem meðal annars eru framleidd bikini baðföt úr því.

Endurvinnslufyrirtækið Aquafil í Slóveníu styðst við vinnsluferli sem kallast depolimasering.  Útkoman er efni sem notað er jafnt í vefnað og teppagerð.

Sá hluti sem fer til vefnaðarvinnslu er nýttur til framleiðslu á baðfötum og hjólreiðafötum.

Auk þess að búa til verðmæti úr netadræsunum vinnur fyrirtækið um leið þarft verk fyrir umhverfið.