,,Engin rökstuddur grunur er á eða rannsóknir sem sýna fram á að mengun frá laxeldi í sjókvíum á Íslandi síðastliðin áratug hafi valdið tjóni á lífríkinu í hafinu og ekki hafa verið notuð lyf eða efni til aflúsunar lax hérlendis. Allt tal um slíkt er í besta falli óskhyggja og þvæla til að rægja greinina,“ segir í fréttatilkynningu frá Landssambandi fiskeldisstöðva.
Ennfremur segir: ,,Fiskeldi sem stundað er á Íslandi í dag með þeim búnaði sem nú er í notkun og þekkingu sem byggst hefur upp, á lítið sem ekkert skylt við þær tilraunir sem hér voru gerðar fyrir meira en 20 árum í sjókvíaeldi og þaðan af síður hafbeit.“
Bent er á að heildarfjöldi laxaseiða sem ráðgert sé að setja í kvíar á næsta ári sé þriðjungur þess sem sleppt var í hafið á stærstu hafbeitarárunum. ,,Slysasleppingar, sem alltaf geta átt sér stað í fiskeldi, eru nú í norsku fiskeldi innan við 0,05%. Ef fiskur sleppur frá íslensku fiskeldi eru taldar litlar líkur á að hann nái að hafa áhrif í íslenskum laxveiðiám vegna staðsetningar eldisins og þeirrar staðreyndar að til að hafa mögulega áhrif á stofna þarf ítrekaðar sleppingar í miklu magni yfir langt tímabil.“
Laxeldi á Íslandi hafa þegar verið settar þröngar skorður þar sem það má einungis stunda á Austfjörðum, Vestfjörðum og í Eyjafirði. Lokanir annarra svæða fyrir laxeldi voru ákvarðaðar með hliðsjón af staðsetningu laxveiðiáa og fyrir tilstilli veiðiréttarhafa.
Sjá fréttatilkynninguna í heild á vef Landssambands fiskeldisstöðva.