Á Breiðinni á Akranesi er að byggjast upp þekkingarsamfélag á sviði sjávarútvegs. Eitt þeirra fyrirtækja sem hefur komið sér þar fyrir er ALGÓ ehf. sem vinnur að þróun á vinnslu þörunga og markaðssókn fyrir afurðirnar á innlendan og erlenda markaði.

ALGÓ er með skrifstofu- og vinnsluaðstöðu í aflagðri fiskvinnslu Haraldar Böðvarssonar. Gunnar Ólafsson, eigandi og framkvæmdastjóri ALGÓ, segir fyrirtækið hafa verið stofnað til þess að vinna að nýtingu þörunga á breiðu sviði. Gunnar er menntaður á sviði þörunga- og lífefnafræði og hefur í gegnum tíðina komið að mörgum þróunarverkefnum tengdum nýtingu sjávarþörunga og ræktun.

  • Gunnar Ólafsson, eigandi og framkvæmdastjóri ALGÓ. Aðsend mynd

Frá síðasta ári hefur ALGÓ einbeitt sér að möguleikum á nýtingu á umtalsverðum þaramiðum á grunnsævi við Skipaskaga.  Gunnar hratt af stað verkefni sem hann kallar sæmeti og er annað heiti yfir sælkera sjávargrænmeti.

„Framtíðarsýnin er sú að hráefnis til vinnslunnar verði aflað með ræktun við uppskölun framleiðslunnar. En núna gengur verkefnið út á það hvort unnt sé að nýta sjávargrænmeti við Skipaskaga til vinnslu á sjálfbæran hátt og koma upp arðbærri vinnslu þó á nettum skala verði til að byrja með."

Á svæðinu hefur Gunnar fundið um tug tegunda ætra sjávarþörunga, en sérstaklega er horft til nokkurra tegunda þara og rauðþörunga eins og sölva. „Tilraunin gengur út á það að nýta þessar villtu þarategundir sem við höfum fundið í umtalsverðu magni,“ segir Gunnar.

Byggt á rannsóknum og þekkingu Gunnars á sviði sjávarþörunga búa kaldsjávarþörungar sem vaxa við Ísland yfir öðrum eiginleikum en sjávarþörungar úr hlýrri sjó. Þar er helst að telja omega 3 fitusýrur.

Strandyrkja

ALGÓ hefur fengið tilraunaleyfi til eins árs frá landeigendum í Akraneskaupstað til að afla hráefnis til að sannreyna viðskiptahugmyndina í smærri skala sem er að nýta sjávarþörunga á Vesturlandi til vinnslu á verðmætum afurðum.

Síðasta sumar var sett upp aðstaða í Breiðinni og búnaður. Þaratekjan á að fara fram á litlum bátum með sjálfbærum hætti. Ákveðinn hluti af þarablöðkunni verður handskorinn með það fyrir augum að hún lifi skurðinn af og plantan vaxi áfram.

  • Þaratekjan mun fara fram á litlum bátum með sjálfbærum hætti. Aðsend mynd

Algengast er á Íslandi að þaratekja fari fram á haustin. ALGÓ hyggst sækja sitt hráefni jafnt að vori og hausti.

„Á vorin sækjum við hráefni sem eru áhugaverðara til matvælaframleiðslu. Meginefnið í sjávarþörungum eru fæðutrefjar en þeir eru líka ríkari af próteinum á vorin en á öðrum árstímum. Þegar kemur fram á haust er hlutfall fæðutrefja og forðasykra í sjávarþörungum hærra.“

Sæmetisvinnsla

Í tilraunafasanum til þessa hefur hráefnið verið fryst þremur til fjórum klukkustundum eftir það hefur verið skorið. Þetta er gert til þess að viðhalda sem mestum gæðum og eiginleikum sem kaldsjávarþörungar búa yfir umfram aðra þörunga. Aðferðin er kostnaðarsöm en Gunnar segir að grundvallaratriði í allri hugmyndinni sé að hráefnið sé í afar miklum gæðum. Annars staðar í heiminum hefur ekki verið farin sú leið að frysta sjávarþörunga fyrir vinnslu heldur hefur vinnslan farið fram innan eins og jafnvel þriggja sólarhringa en við það glatast ákveðnir eiginleikar í hráefninu.

  • Það er ekki eins og hráefni til vinnslunnar sé af skornum skammti. Aðsend mynd

Sá hluti verkefnisins sem nú er að hefjast er sjálf vinnslan. Um verður að ræða tvenns konar vinnsluaðferðir til að umbreyta sjávarþörungunum í sæmeti sem haft er til matar. Í fyrsta lagi eru það hraðvirkar þurrkunaraðferðir. Allt að 85-90% vatnsinnihald getur verið í ferskum þara og tíma- og orkufrekt er að þurrka hann þannig að vatnsinnihaldið verði 15% eða minna til þess að hann geymist. Til þess að viðhalda ákveðnum efnagæðum í hráefninu er ekki hægt að þurrka það við mikinn hita. Þess vegna tekur þurrkunin 10-12 klukkustundir í þurrkofnum í hefðbundnum blæstri. Gunnar kveðst telja að þessi aðferð sé ekki arðbær vegna hins langa þurrkunartíma.

„Þess vegna eru í gangi tilraunir og fyrirhugað er samstarf við verkfræðideild Háskóla Íslands um að þróa hraðvirkari þurrkaðferðir,“ segir Gunnar.

Hann segir að þurrkunin henti hugsanlega betur fyrir voruppskeruna þegar sjávarþörungarnir eru próteinríkari. Prótein er verðmæt afurð sem er notuð t.d. til íblöndunar í önnur matvæli. Á haustin er hráefnið ríkara af forðasykrum sem nýtast til gerjunar á því.

Vor- og haustuppskera

„Framtíðarsýnin er því að við verðum með voruppskeru sem fer í ákveðið vinnsluferli og ákveðnar afurðir og haustuppskeru sem allt önnur vinnsla er á og fer í allt aðrar afurðir beint til neyslu.“

Önnur vinnsluaðferðin er gerjun á hráefninu. Stefnt er að því að þróa þá aðferð í náinni framtíð. Í tengslum við það þarf að fara fram grunnþróunarvinna sem gæti verið unnin í samstarfi við aðra. Gunnar segir þetta áhugaverða vinnsluaðferð til geymslu á hráefninu og til þess að opna það og umbreyta því í kræsilegri afurðir. Það gæti t.a.m. nýst í framleiðslu á gerdrykkjum og súrkáli. Einnig eru gerjaðar fiskafurðir þekktar í Asíu.

„Gerjaður matur er einatt tengdur við ofurhollustu en um leið er gerjun þekkt geymsluaðferð,“ segir Gunnar.

  • Markmiðið er að gera sjávarþörunga hluta af daglegri fæðu fólks. Aðsend mynd

Megin áskorun ALGÓ ehf. er að breyta sjávarþörungum í sæmeti sem höfðar til almennings. Markmiðið er að gera sjávarþörunga hluta af daglegri fæðu fólks. ALGÓ mun einbeita sér að heimamarkaði en sá markaður er skilgreindur Ísland og Holland. Gunnar er nýlega kominn frá Hollandi þar sem hann segir mjög áhugaverða þróun vera í vinnslu matvæla og neyslu. Þar má meðal annars nefna þróun á ýmiss konar veganréttum og stóra matvælaframleiðendur sem kaupa afurðir úr sjávarþörungum til íblöndunar í önnur matvæli.

„Við stefnum að því að fullmóta þessar viðskiptahugmyndir sem eru uppskalanlegar úr lítilli tilraunavinnslu í umfangsmeiri afurðavinnslu. Í gangi eru þreifingar í Hollandi varðandi markaðssetningu og sölu. Stefnan er sú annars vegar að fyrir næstu jól verðum við með allt að þrjár afurðir sem við ætlum sjá hvernig verði tekið af neytendum á Íslandi og hins vegar að framleiða hágæða hráefni sem yrði notað til íblöndunar í matvælaframleiðslu með hollenskum samstarfsaðilum okkar.“