Undirritaðar hafa verið viljayfirlýsingar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðabankans um samstarf á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda og málefna hafsins. Munu íslensk stjórnvöld leggja til sérfræðiþekkingu og stuðning við fiskimál og fiskimannasamfélög á þeim stöðum sem Alþjóðabankinn hefur starfsemi, meðal annars í Vestur-Afríku.
Á vef stjórnarráðsins segir frá fundi Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra, og Lauru Tuck, varaforseta Alþjóðabankans á sviði sjálfbærrar þróunar. Með fyrrnefndum samningi munu íslensk stjórnvöld leggja til sérfræðiþekkingu og stuðning við fiskimál og fiskimannasamfélög á þeim stöðum sem Alþjóðabankinn hefur starfsemi, meðal annars í Vestur-Afríku.
„Það er mjög ánægjulegt að auka samstarf við Alþjóðabankann, stærstu þróunarsamvinnustofnun heims, á sviði sjálfbærrar nýtingar sjávarauðlinda. Þar höfum við Íslendingar mikilsverða sérþekkingu sem mikilvægt er að deila með fátækari þjóðum," segir Guðlaugur Þór sem einnig átti fund með Susanne Ulbæk, stjórnarfulltrúa kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í Alþjóðabankanum.
„Ísland mun taka yfir formennsku í samstarfi kjördæmisins á næsta ári og þar með leiða samræmingu í málefnavinnu þessa öfluga ríkjahóps innan Alþjóðabankans. Það verður krefjandi verkefni en jafnframt tækifæri til að sýna hvað í okkur býr og láta gott af sér leiða,“ segir Guðlaugur Þór.