Fulltrúar frá Cruise Iceland voru í liðinni viku í Miami í Flórída á ráðstefnunni SeaTrade Global sem snýst um skemmtiferðaskip. Meðal þeirra var Sigurður Jökull Ólafsson, markaðsstjóri Faxaflóahafna, sem nýlega tók við sem formaður stjórnar Cruise Iceland.

„Á skiparáðstefnum eins og SeaTrade Global er fyrst og fremst verið að tryggja viðskiptasambönd, semja um þjónustu við skip og farþega, og ekki síst fara yfir framkvæmd aðgerða þegar skipin koma í land,“ segir Sigurður.

Það megi því segja að fyrst og fremst sé um að ræða svokallað „B2B Relationship Marketing“ en það snýst um að byggja upp langtímasamband við viðskiptavini.

Cruise Iceland í tuttugu ár

Markaðsstarf sem nú sé unnið erlendis segir Sigurður miða fyrst og fremst að því auka þjónustustigið til að tryggja virðisaukningu og þar með meiri tekjur fyrir greinina.

Emma Kjartansdóttir frá Iceland Travel, varaformaður Cruise Iceland, og Sigurður Jökull Ólafsson, formaður samtakanna, í Miami. Mynd/Aðsend
Emma Kjartansdóttir frá Iceland Travel, varaformaður Cruise Iceland, og Sigurður Jökull Ólafsson, formaður samtakanna, í Miami. Mynd/Aðsend

Samtökin Cruise Iceland voru stofnuð á Ísafirði 2004 af Faxaflóahöfnum, höfninni á Akureyri og höfninni á Ísafirði sem stóðu að stofnun. Sigurður Jökull segir að formlegur stofnfundur hafi farið fram í Reykjavík sama ár.

Áherslan ekki á að fjölga komum

„Hafnir, umboðsmenn skipa og farþega ásamt þjónustufyrirtækjum eiga aðild að samtökunum.  Síðustu misseri hefur meðlimum fjölgað í takt með að mikilvægi geirans hefur aukist fyrir íslenskt atvinnulíf,“ segir Sigurður. Hann játar því að viðfangsefni Cruise Iceland hafi breyst á þessum tveimur áratugum frá stofnun.

„Já, mjög mikið,“ svarar Sigurður. „Í upphafi var megin þemað að ná skipum til Íslands og kynna Ísland sem áfangastað skemmtiferðaskipa, enda ekki mörg skip sem voru að koma. Seinustu ár hefur áhersla Cruise Iceland breyst yfir í að tryggja sjálfbæran vöxt til framtíðar í sátt við almenning og atvinnulíf á sérhverjum áfangastað.“

Spurður um helstu og mikilvægustu verkefni Cruise Iceland, nú og til framtíðar segir Sigurður þau vera að stuðla að virðisaukningu og skilvirkni greinarinnar fremur en vöxt í skipakomum.

Skili sem mestu í hagkerfið

© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Innviðir hafna, nærsamfélaga og geta þjónustuaðila til að taka á móti skemmtiferðaskipum með sem bestum hætti eru á þeim stað að áfangastaðurinn Ísland ræður við það með sómasamlegum hætti. Hins vegar er mikilvægt að auka þjónustu og þjónustustig allra aðildarfélaga þannig að greinin skili sem mestu í hagkerfið á Íslandi,“ segir Sigurður.

Fyrir Faxaflóahafnir segir Sigurður mikilvægt að koma að starfi Cruise Iceland enda stærsta hafnarfyrirtækið á Íslandi og ein mikilvægasta skiptifarþegahöfn í Norður-Atlantshafi.

Færri skip en jafn margt fólk

„Því eru Faxaflóahafnir að miklu leyti lykillinn að því hvernig geirinn þróast á Íslandi, hins vegar þá er jafn mikilvægt að komur skemmtiferðaskipa fari vel fram í öllum þeim höfnum á Íslandi sem taka á móti þeim. Því skipakomur eru til áfangastaðarins Ísland sem heildar,“ segir Sigurður.

Varðandi komur skemmtiferðaskipa í sumar segir Sigurður þær verða ögn færri en áður en að farþegafjöldinn í heild verði svipaður og verið hafi, um það bil 320 þúsund manns.

„Hins vegar eykst hlutfall skiptifarþega úr 48 prósentum í 52 prósent sem er gott því þeir gista í landi og fljúga til og frá landinu,“ segir hann.

Fjórðungur af tekjunum

Tekjur Faxaflóahafna af skemmtiferðaskipum eru nú um 25 prósent af heildartekjum Faxaflóahafna. Fyrir aðeins tíu árum var þetta hlutfall 5 prósent.

„Þannig að það er augljóst að þetta er veigamikill þáttur í rekstri Faxaflóahafna. Liður í því er bygging á farþegamiðstöð sem verður tilbúin 2026, sem mun enn frekar tryggja virðisaukningu af skipakomum skemmtiferðaskipa,“ segir markaðsstjóri Faxaflóahafna.