Loftslagsvísar sjávarútvegs og fiskeldis hafa verið gefnir út ásamt loftslagsvísum níu annarra atvinnugreina á Íslandi. Þar er að finna fjölmargar tillögur um hvernig draga megi úr losun gróðurhúsalofttegunda á næstu árum.

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) stæra sig af því, í frásögn á vef sínum, að sjávarútvegurinn hafi „dregið vagninn þegar kemur að samdrætti í kolefnislosun og mun halda því áfram, fái hann svigrúm til þess.“

Í framhaldi af því er varað við frekari gjaldheimtu, „hvort sem er í formi hækkunar veiðigjalds eða kolefnisgjalds“. Aukin gjaldheimta dragi úr þessu svigrúmi og minnki „möguleikann á því að sjávarútvegurinn dragi vagninn í mark þegar kemur að háleitum lofstlagsmarkmiðum stjórnvalda fyrir næstu árin.“

Rannsóknir og stjórnun

„Til þess að áfram megi draga úr olíunotkun þarf að tryggja svigrúm til fjárfestinga í nýjum skipum svo endurnýja megi flota sem kominn er á aldur með bætta orkunýtingu að leiðarljósi. Þá þarf líka að treysta innviðina um land allt svo landtengingar við rafmagn í höfnum landsins virki og nýtist í stað olíu við löndun.“

Sérstaklega er hvatt til þess að stoðir hafrannsókna verði styrktar „svo vakta megi með öflugum hætti helstu nytjastofnana.“

Einna mikilvægast sé þó „að standa vörð um fiskveiðistjórnunarkerfið sem hefur leitt til framþróunar í sjávarútvegi og á grundvelli þess kerfis hefur tekist að stækka fiskistofna sem hefur mikil áhrif á eldsneytisnotkun.“

Nær allar rafvæddar

Bent er á að fiskimjölsverksmiðjur hér á landi séu svo nær allar rafvæddar.

„Til að viðhalda þeim árangri þurfa stjórnvöld að tryggja að raforka sé til staðar en árið 2022 var til dæmis ekki unnt að tryggja næga raforku svo fiskimjölsverksmiðjurnar gætu sagt alfarið skilið við olíuna.“

Hvað fiskeldi varðar segir að með réttum hvötum megi flýta árangri í loftslagsmálum. Tryggja þurfi „aukið svigrúm til fjárfestinga í orkuskiptum, rafvæðingu smærri vinnubáta, setja rafhlöðukerfi í þjónustubáta og landtengja stærri báta og fóðurpramma. Undirstaða þess eru styrkari innviðir og raforka.“

Einnig fékk SFS Norska ráðgjafarfyrirtækið DNV til þess að greina hvernig ná mætti fram markmiðum um minni olíunotkun í fiskiskipum, og er þá miðað við að 25% samdrætti verði náð árið 2030.