Eitt mest björgunarafrek íslenskrar sjóslysasögu var unnið af áhöfninni á Fríðu RE laugardaginn 11. mars 1911. Þá var Fríða RE 13 á heimleið með fullfermi fisks þegar tók að hvessa af suðaustri og gerði á skammri stundu hið versta veður, hávaðarok og slydduhríð. Á sama tíma voru sjö opnir róðrarbátar á sjó frá Grindavík.

Þótti strax sýnt að Grindavíkurbátarnir myndu ekki ná landi. Einum bát af sjö heppnaðist þó áfallalaus lending en aðrir urðu frá að hverfa. Samtals voru 58 manns á bátunum sex sem enn voru á sjó. Skemmst er frá því að segja að það tókst að koma 57 mönnum heilu og höldnu um borð í Fríðu. Elvar Antonssonar hagleiksmaður á Dalvík lauk í fyrra smíði á stórglæsilegu líkani af Fríðu RE sem nú er varðveitt í Kvikunni, menningarhúsi Grindvíkinga.

Líkan Elvars Antonssonar af Fríðu RE.
Líkan Elvars Antonssonar af Fríðu RE.

Ætla má að róðrarbátarnir sem þarna lentu í sjávarháska hafi flestir verið áttæringar með grindavíkurlagi. Tugir slíkra báta voru í notkun á þessum árum. Einn bátur þessarar gerðar hafði varðveist. Það var áraskipið Geir frá Staðarhverfi í Grindavík. Það var flutt í skemmu Þjóðminjasafnsins í Kópavogi árið 1980 og var listilega gert upp. Áhugasamir menn úr Grindavík höfðu safnað búnaði, sjóklæðum og fleiru sem einnig var geymt í bátnum. Þau örlög biðu hans að eyðileggjast í miklum bruna ásamt fjölda annarra báta og minja þegar eldur kom upp í skemmu Þjóðminjasafnsins árið 1993.

Minnisvarði um horfna atvinnuhætti

Ólafur Sigurðsson skipstjóri í Grindavík er mikill áhugamaður um sögulegar minjar. Hann er einn af stofnendum Minja- og Sögufélags Grindavíkur og hefur unnið að merkum málum, eins og varðveislu sjóbúðar og smíðinnar á líkani Fríðu RE.

Ólafur Sigurðsson í Grindavík. Mynd/gugu
Ólafur Sigurðsson í Grindavík. Mynd/gugu

Ólafur hefur ýtt úr vör verkefni sem miðar að því að nákvæm eftirmynd af áraskipinu Geir verði smíðað í fullri stærð og varðveitt og haft til sýnis í Grindavík. Ólafur segir að stefnt sé að því að báturinn verði minnisvarði til framtíðar um horfna atvinnuhætti og um leið upphaf þeirra lífshátta sem enn móta líf og tilveru Grindvíkinga og Suðurnesjamanna. Áraskipið verður í fullri stærð, 11 metrar á lengd, mesta breidd 2,92 metrar og dýpt 1,02 metrar. Það verður með rá og reiða.

Í öðru bindi í bókaröðinni Íslenzkum sjávarháttum eftir Lúðvík Kristjánsson er nákvæm lýsing tírónum áttæringi, skipi sem Bárður G. Tómasson skipaverkfræðingur mældi árið 1945 og teiknaði árið 1951. Þar segir meðal annars: „Þetta skip hefur verið frekar stokkreist en þó á því töluverður síðuhalli, vel lotað með hringmynduðu framstefni, öfugt við það sem var á hinni yngri gerð Grindavíkurskipa. Það hefur verið lipurt, létt undir árum, endar góðir, sérstaklega viðtakamikið á skut og varið sig vel, en verið frekar grunnt miðað við lengd og breidd og þess vegna ekki mikið burðarskip í samanburði við stærð, aftur á móti farið ágætlega undir farmi og verið vel undirbyggt sem siglingaskip.“

Bærinn og útgerðin styðja verkefnið

Grindavíkurbær hefur lagt verkefninu til þrjár milljónir króna en samkvæmt kostnaðaráætlun sem lögð var fram er áætlaður kostnaður við smíði og annan kostnað 14,5 milljónir króna. Fenginn hefur verið til verksins Hafliði Aðalsteinsson bátasmiður á Reykhólum. Byggist sú kostnaðaráætlun meðal annars á kostnaði við smíði á áttæringi með breiðfirsku lagi fyrir aðila í Grundarfirði sem Hafliði smíðaði. Útgerðarfyrirtæki í Grindavík  hafa gefið vilyrði um að þau muni styðja verkefnið fjárhagslega. Báturinn verður smíðaður eftir teikningu Bárðar G. Tómassonar sem er að finna í öðru bindi Íslenzkra sjávarhátta. Áttæringurinn er með svokölluðu grindavíkurlagi, tíróinn teinæringur með tvo menn á tveimur árum skipsins, af hinni gömlu gerð vertíðarskipa í Grindavík. Áætlað er að smíði bátsins verði lokið í byrjun árs 2023.