Heimastjórn Borgarfjarðar eystri vill að Byggðastofnun skoði hvort ekki séu forsendur fyrir því að úthluta sértækum byggðakvóta til Borgarfjarðar sem byggðafestuaðgerð.
„Rík þörf er til að styrkja sjávarútveg staðarins en þrátt fyrir miklar umræður hefur þessi atvinnustarfsemi, útgerð og fiskvinnsla, ekki hlotið náð fyrir augum Byggðastofnunar í gegnum verkefnið Brothættar byggðir né síðar,“ segir í bókun heimastjórnarinnar.
Sveitarstjórn Múlaþings tekur undir með heimastjórninni varðandi þörf á að styrkja sjávarútveg Borgarfjarðar og beinir því til Byggðastofnunar að skoða úthlutun sértæks byggðakvóta til Borgarfjarðar.
Vilja jafna hlut strandveiðibáta
Það vill heimastjórnin breytingar á strandveiðikerfinu.
„Heimastjórn Borgarfjarðar eystri skorar á hæstvirtan matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur að meðan að ekki eru tryggðir 48 dagar til strandveiða á hverju ári og landið einn veiðipottur, sé því aflamagni sem ætlað er til strandveiða skipt niður í jafna hluta á hvern þann mánuð sem heimilt er að stunda strandveiðar,“ segir í bókun heimastjórnarinnar. Veiðar verði stöðvaðar þegar heildaraflamagni hvers mánaðar sé náð.
„Þessi aðgerð mun jafna aðstöðu milli landshluta og á sanngjarnan hátt rétta hlut byggðarlaga á C-svæði,“ segir heimastjórnin en Borgarfjörður eystri er á C-svæði í strandveiðikerfinu.
Sveitarstjórn Múlaþings kveðst taka undir þessa bókun heimastjórnar Borgarfjarðar og harma að enn hafi ekki tekist að tryggja 48 daga til strandveiða á ári.
Ýmsar leiðir til að draga úr ósanngirni
„Skekkjan sem stöðvun veiða fáeinum dögum eftir að stór fiskur skilar sér á miðin við Norður og Austurland hefur leitt til fækkunar strandveiðibáta á öllum svæðum nema A- svæði en þó er fækkunin mest á C- svæði,“ bendir sveitarstjórnin á og kveður ýmsar leiðir færar til að draga úr „ósanngirni núverandi kerfis“, meðal annars að jafna magn aflaheimilda í hverjum mánuði, fækkun daga í hverjum mánuði eða skiptingu aflaheimilda eftir fjölda skráðra báta á hvert svæði.
„Sveitarstjórn Múlaþings skorar á matvælaráðherra að leita allra leiða til að auka aflaheimildir í strandveiðipottinn svo 48 dagar megi nást en að öðrum kosti að jafna leikinn svo yfirstandandi hrun strandveiðiútgerðar á C- svæði verði stöðvuð.“