Vigdís Häsler er verkefnastjóri hjá Kleifum fiskeldi sem hyggjast setja á laggirnar sjókvíaeldi á laxi í Eyjafirði og fjörðunum við Tröllaskaga. Því tilheyrandi á að vera seiðaeldisstöð á Siglufirði og síðar slátrun á fullvaxta löxum. Í Ólafsfirði verði lax í landeldi áður en hann er fluttur í sjókvíar.
Að sögn Vigdísar sendi Kleifar fiskeldi þann 2. september síðastliðinn erindi til þáverandi matvælaráðherra þar sem fyrirætlanir félagsins voru kynntar. Í bréfinu hafi verið farið fram á að ráðherra léti framkvæma burðarþolsmat og áhættumat í Eyjafirði, Siglufirði, Héðinsfirði og Ólafsfirði, í samræmi við ákvæði fiskeldislaga. Það mat feli í sér mikilvægar mælingar á eðlis- og efnafræðilegum þáttum sem séu nauðsynlegar fyrir eldi á laxi í sjó.

„Skemmst er frá því að segja að ráðuneytið sendi félaginu svarbréf þess efnis að ákvæði fiskeldislaga um að ráðherra ákveði hvaða svæði skuli burðarþolsmetin hverju sinni, er heimildarákvæði og það sé í höndum stjórnvalda á hverjum tíma að ákveða hvernig haga skuli framtíðaruppbyggingu fiskeldis hérlendis,“ segir Vigdís.
Að sögn Vigdísar er það hins vegar álit Kleifa fiskeldis að á ráðherra málaflokksins hvíli svokölluð jákvæð athafnaskylda til að tryggja að aðilar sem hafi hug á að byggja upp atvinnustarfsemi hvers konar, fái notið þeirra réttinda að komast að þeim lögbundnu matsferlum sem lög geri ráð fyrir.
„Það er því enn unnið eftir þessu plani, en nú eru 58 prósent allra fjarða á landinu lokaðir fyrir eldi í sjó, þrátt fyrir að tækninni fleygi fram,“ segir Vigdís. Planið hafi verið gert árið 2004 þegar Guðni Ágústsson var ráðherra.
Byggt á gömlum forsendum
„Ég fæ illa séð á hvaða gögnum eða forsendum sú auglýsing byggir, en hún er vel komin til ára sinna og svo sannarlega ekki í samræmi við þá tækni og framþróun sem hefur átt sér stað innan atvinnugreinarinnar á undanförnum árum. Forsendurnar fyrir auglýsingunni þegar hún var sett eru því ekki þær sömu og í dag og ljóst að hún hefur verið birt nær einvörðungu á forsendum þeirra sem stýrðu landinu þá. Á meðan eru möguleg fjárfestingatækifæri sem geta haft gríðarlega jákvæð áhrif á byggðarlögin landið um kring látin bíða,“ undirstrikar Vigdís.
Þá segir Vigdís það vera sitt álit að auglýsingin um friðunarsvæðin frá 2004, þar sem eldi laxfiska í sjókvíum er óheimilt, vera atvinnufrelsinu takmarkandi. Enda sé byggt á grundvelli ákvæðis í eldri lögum um lax- og silungsveiði, sem felld hafi verið úr gildi árið 2008 og síðar leyst af hólmi með nýjum lögum um fiskeldi árið 2008.
Friðun Eyjafjarðar yrði hamlandi
„En þegar þau lög tóku gildi var hvorki kveðið á um endurnýjun né vikið að gildi hennar við setningu nýrra laga. Nú bíðum við ákvörðunar fimmta ráðherrans sem fer með málaflokkinn frá því að Róbert Guðfinnsson ræddi þetta fyrst við ráðherra árið 2016, þannig að það liggur ekki ljóst fyrir hvaða fjörður verður fyrir valinu,“segir Vigdís.

Varðandi hvaða fyrirstöður séu helst í veginum, til dæmis varðandi friðunarmál í Eyjafirði segir Vigdís fjölda fjarða vera opna, ef svo megi segja, fyrir sjókvíaeldi.
„En nú eru leyfi í tíu af fjórtán fjörðum þar sem ekki gildir bann við sjókvíaeldi til verndar villtum laxastofnum. Eyjafjörðurinn er ekki friðaður, þar er stunduð ýmis sjó- og hafsækin starfsemi, og nú síðast áttu sér stað áhafnaskipti á kjarnorkukafbátum í firðinum.
„Ég get því ekki séð fyrir mér að friðun Eyjafjarðar muni eiga sér stað í náinni framtíð því að með því að friða fjörðinn, er verið að takmarka ýmsa starfsemi sem jafnvel er nú þegar stunduð þar í dag,“ segir Vigdís. Því þurfi að spyrja ráðherra atvinnuvega og ríkisstjórnina hvert sé planið.
Ástæða ráðherra sé ekki gild
„Því ég á erfitt með að sjá að eina málefnalegan ástæðan fyrir ráðherra fyrir því að kalla ekki eftir burðarþols- og áhættumati fyrir Eyjafjörðinn, væri skortur á fjármagni til verkefnisins,“ segir Vigdís. Þá sé einmitt komið að kjarna málsins. Frá árinu 2016 hafi Hafrannsóknarstofnun þegið 330 milljónir króna frá Umhverfissjóði sjókvíaeldis til þess að burðarþolsmeta hafsvæði og jafnframt þegið 1.590 milljónir króna frá sjóðnum til vöktunar á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á sama tímabili.
„Samkvæmt framvinduskýrslum Hafrannsóknarstofnunar til Umhverfissjóðs sjókvíaeldis var umhverfisrannsóknum fyrir Eyjafjörð lokið í febrúar 2017 og mælistöðvar voru settar út í hluta Eyjafjarðar í febrúar 2018 og endurheimtar í maí 2019. Samkvæmt áformum Hafrannsóknastofnunar var gert ráð fyrir að burðarþoli fyrir Eyjafjörð yrði lokið fyrir árið 2019/2020, líkt og kemur fram í framvinduskýrslum frá stofnuninni. Ég hef sagt það áður og segi það aftur, að stofnunin hefur því verið að gera nákvæmlega það sem hún á að gera.“
Tækni fyrir velferð laxins
Í raun segir Vigdís aðferðarfræði Kleifa ekki svo frábrugðna öðrum eldisaðferðum sem beitt sé í dag.

„Vissulega skiptist eldi á laxi í annars vegar framleiðslu í sjó og hins vegar á landi. Kleifar stefna aftur á móti að því að setja upp framleiðsluna með þrískiptu eldi, það er seiðaeldi að 300 grömmum á Siglufirði, þar sem núverandi fasteignir og innviðir eru nýttir, það er höfn, tankar og skemmur. Síðan yrði smálaxinn fluttur í landeldiskvíar í höfninni í Ólafsfirði og alinn þar upp í hátt í 2.000 grömm gagngert til að minnka tímann í sjó,“ segir Vigdís. Með því að ala laxinn í allt að 2 kíló í landeldiskvíum styrkist ónæmiskerfi og kuldaþol fisksins.
„Þá má jafnframt nefna að það er íslensk sérstaða að geta notað jarðhita í gegnum varmaskipti til að hita sjó inn í lónin. Síðan er það þriðja stig framleiðslunnar, ef svo má kalla, sem er að flytja laxinn úr landkvíum í sjó. Það sem við einblínum á er að byggja á þekktum eldisaðferðum en um leið stefna að því að nýta bestu mögulegu tækni sem hentar umhverfinu og velferð laxins,“ útskýrir Vigdís.
Slátrun á Siglufirði
Varðandi vinnsluna á eldislaxinum segir Vigdís að slátrun sé fyrirhuguð á Siglufirði. Fyrsta sviðsmynd sé að vinna hann „head on gutted“ sem sé í rauninni það að fiskurinn sé hreinsaður en hausinn skilinn eftir.
„Það eru ýmsir markaðsfræðingar sem vilja meina að með því að selja laxinn unninn með þessum hætti, þá sé hann meira „aðlaðandi“ fyrir neytendur sem kjósa heilan fisk. Það eru aftur á móti mikil tækifæri í því að nýta slorið og annað í verðmætar hliðarafurðir,“ segir Vigdís sem kveður lax sem framleiddur er hér á landi fara að stórum hluta til útflutnings og vera álitinn gæðavara.
Enn gríðarleg tækifæri ytra
„Það eru enn gríðarleg tækifæri og hillupláss fyrir meiri íslenskan lax á mörkuðum á Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi. Síðan hefur Bandaríkjamarkaður farið ört vaxandi en það er svo spurning hvernig fer með tollastríðið sem forsetinn þar í landi hefur efnt til. Svo eru markaðir einnig í Japan og Suður-Kóreu en það eru gríðarlegar áskoranir sem fylgja því að flytja ferskvöru um svo langan veg,“ segir Vigdís. Hana minni að í dag sé framleiðslan á Íslandi um 1,5 prósent af allri heimsframleiðslunni og að við séum og verðum í beinni samkeppni við lönd eins og Noreg og Chile til framtíðar.
„Ég tel að það hafi nú ekki miklar sviptingar orðið frá því að verkefnið var kynnt í september á síðasta ári,“ svarar Vigdís spurð hvort markaðshorfur í dag séu líkar því sem þær voru þegar verkefnið var kynnt eða hvort þær séu að breytast. Hins vegar gildi um þetta það sama og aðra matvælaframleiðslu, að neytendur horfi meira til frumframleiðslunnar og til næringargildis og gagnsæi í framleiðsluferlum, til að mynda til þess hversu margir milliliðirnir séu. Nú séu fyrirtækin hér á landi að framleiða lax sem hafi ákveðið gæðaorðspor á erlendum mörkuðum.
Sama merki en ekki ríkislax
„Við ættum því hreinlega að horfa til markaðsherferða Færeyinga og selja íslenskan lax til útflutnings undir einu og sama merkinu. Þá er ég ekki að tala um markaðssetningu á einum „ríkislaxi“, heldur að notað sé eitt merki með vottun sem uppfyllir ákveðna staðla. Þannig megi koma í veg fyrir óreiðu í merkingarmálum og jafnvel „hvítþvott“ á umhverfismerkjum sem ekkert er svo að baki, því við erum að sjá þessa óreiðu til að mynda koma skýrt fram í merkingum á búvörum sem eru framleiddar eða er pakkað inn hér á landi,“ segir Vigdís.
Skapi 180 störf á svæðinu
Spurð um hversu mörg störf muni skapast af 20.000 tonna laxeldi segir Vigdís það fara eftir mörgum þáttum eins og stöðugleika í rekstri fyrirtækisins, eldisaðferðum og atvinnuháttum á svæðinu. Áætlanir Kleifa séu um að verkefnið muni skapa hátt í 170-180 störf á svæðinu.
„Það byggir á greiningum á uppbyggingu laxeldi á Vestfjörðum og áætlunum sambærilegra verkefna landið um kring. En þessi störf yrðu í frumframleiðslu, í sláturferli og í tengslum við aðra þjónustuþætti fyrirtækisins, svo sem í flutningum, dreifingu, ráðgjöf, stjórnun og færniþjálfun starfsfólks,“ segir Vigdís.
Aftur á móti þurfi að líta til aukinnar sjálfvirknivæðingar í greininni.
Hefji slátrun 2033
„Þá má áætla að þörf fyrir mannskap minnki, en þó ber að hafa í huga að starfsemin krefst eftir sem áður faglegrar þekkingar og viðhalds á vélum, sem leiðir til sérhæfðari starfa en ella. Því má gera ráð fyrir 30 til 50 störfum til viðbótar. Hvað framleiðsluna varðar þá gerum við ráð fyrir, ef allt gengur að óskum, að við getum átt fyrstu slátrun á ári átta, það er árið 2033, en fulla slátrun árið 2035,“ segir Vigdís.

„Já og nei,“ svarar Vigdís spurð hvort viðbrögð úti í samfélaginu við þessum formum hafi komið á óvart og þá hvernig.
„Fólk og fulltrúar úr sveitarstjórnum virðast stökkva upp á afturlappirnar þegar þau heyra að við hyggjum á eldi í sjó, án þess svo að vera reiðubúið til umræðu um eldisaðferðir og tækniframfarir í greininni. Það kom berlega í ljós þegar óskað var eftir fundi með öllum sveitarfélögunum en ekkert þeirra hafði áhuga á að fá einu sinni kynningu á verkefninu til þess að geta myndað sér upplýsta skoðun í kjölfarið, nema þá Fjallabyggð og Eyjafjarðarsveit. En það er ekki ætlun okkar að ala á sundrung innan sveitarfélaganna, nóg er nú um innansveitarkrónikuna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga á næsta ári,“ segir Vigdís.
Hins vegar byggja áform Kleifa og meginmarkmið að sögn Vigdísar á að styrkja atvinnustarfsemi og byggð á Norðurlandi og á því að þróa rekstrarfyrirkomulag sem geti myndað sátt um sjókvíaeldi til lengri tíma, samfélaginu til hagsbóta.
Verða ekki á hliðarlínunni
„Við kynntum áformin mjög snemma, það er í september á síðasta ári á fjölsóttum íbúafundi í Ólafsfirði. Áætlanir okkar eru svo um að upplýsa íbúa á svæðinu um framvinduna og taka okkur þar með LAXEY og Vestmannaeyjabæ til fyrirmyndar, en í tengslum við uppbyggingaráform fyrirtækisins þar, áttu þau í miklu og góðu upplýsandi samráði og samtali við sveitarfélagið og íbúana,“ segir Vigdís. Margir hafi skoðanir á ýmsu í tengslum við þetta verkefni eins og önnur.
„En ég hef lært það mjög snemma á mínum starfsferli að afla mér þá upplýsinganna beint og leita eftir þeim frá þeim aðila þaðan sem þær eru upprunnar. Áskoranirnar eru þó mýmargar og það er alveg ljóst að við munum ekki taka okkur stöðu á hliðarlínunni því við munum tala um fyrir atvinnugreininni og bæta orðspor hennar og þar með fyrirtækisins,“ segir Vigdís.
Spurð hvort komi til greina að færa verkefnið annað ef ekki verði unnt að hefja starfsemina í Fjallabyggð segist Vigdís helst ekki vilja hugsa þá hugsun til enda. „Markmiðið er uppbygging í Fjallabyggð,“ ítrekar hún.
Ekki verið að bjóða mútur

Spurð um undirtektir sveitarfélaganna á svæðinu við annars vegar verkefninu sjálfu og hins vegar boði fyrirtækisins um að sveitarfélögin fái hlut í félaginu til eignar byrjar Vigdís á að segja að nærri því allir bæjar- og sveitarstjórar sveitarfélaganna sjö sem þessi atvinnuuppbygging snerti, hafi mætt á kynningarfundinn í Ólafsfirði í september og áhugi verið til staðar hjá þeim.
„Aftur á móti virtust undirtektirnar vera dræmar hjá einstaka sveitarstjórnum,“ segir Vigdís sem telur þetta geta skýrst af tveimur þáttum, annars vegar af sjóeldinu og hins vegar af því að verkefnið sé enn í undirbúningi.
„Hvað varðar svo boð Kleifa um að sveitarfélögin eignist hlut í félaginu, þá hafa einhverjar sveitarstjórnir tekið vel í þá hugmynd en eins höfum við heyrt orð eins og mútur. Þess vegna vil ég fá að nota tækifærið og útskýra þetta aðeins,“ segir Vigdís. Stofnendur Kleifa hafi verið meðvitaðir um að forsenda þess að atvinnugreinin fái að blómstra og að nærumhverfið njóti góðs af, sé að sveitarfélög þar sem fiskeldi fari fram fái sanngjarnt afgjald af auðlindinni sem sveitarfélögin og samfélög þeirra geti nýtt til innviðauppbyggingar.
Fiskeldissjóður ekki reynst vel
„Núverandi kerfi með umsóknarferli í Fiskeldissjóð, sem er samkeppnissjóður, hefur ekki reynst vel og komið í veg fyrir að sveitarfélögin geti gert fjárhagsáætlanir um innviðauppbyggingu til lengri tíma þar sem ekki er hægt að treysta á stöðugt fjármagn úr sjóðn um,“ segir Vigdís.
Þannig hafi sveitarfélög sem hafi þurft að taka á móti fleiri íbúum samfara hraðri uppbyggingu fiskeldis, til dæmis með byggingu húsnæðis og með því að veita lögbundna þjónustu eins og skólaþjónustu og heilsugæslu, þurft að „fara í röð“ á hverju ári þegar deilt er úr Fiskeldissjóði.
„Þannig hafa sveitarfélögin og samtök sjávarútvegssveitarfélaga um langa hríð, líklega síðastliðin fimmtán ár, kallað eftir því að sveitarfélögin fái beina hlutdeild í fjármagnstekjusköttum og aukna hlutdeild í sköttum einkahlutafélaga og í staðinn að þá verði Fiskeldissjóður lagður niður. Það er því markmið Kleifa að tryggja að sveitarfélögin á svæðinu fái hlutdeild í þeim arði sem skapast og styrki þar með uppbyggingu innviða nærsamfélaganna frá fyrsta degi, með því að styrkja stoðir samfara uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu og aðstoða þar með við uppbyggingu samfélagsins,“ segir Vigdís.
Þunn gagnrýni
Vegna þessa segir Vigdís að nærliggjandi sveitarfélögum verði afhentur eignarhlutur í Kleifum til að styðja við byggð og stuðla að hagvexti. Verði hverju og einu sveitarfélagi boðið um 1,4 prósenta hlutur og þeim öllum þar með samtals 10,1 prósent í bréfaflokki sem fái arðgreiðslur. Þessi bréf séu varin gagnvart þynningu en séu án atkvæðaréttar og þau megi ekki framselja.
„Gert er ráð fyrir að heildar árlegt skattspor félagsins í fullum rekstri verði um 3,9 milljarðar króna og þar af er gert ráð fyrir að hátt í 700 milljónir króna á ári renni beint til sveitarfélaganna til viðbótar við þann hagnað sem greiddur yrði út úr félaginu. Við erum því að gera nákvæmlega það sem sveitarfélögin hafa verið að biðja um síðastliðin ár og því vil ég meina að það liggur heldur þunnt á þessari gagnrýni,“ segir Vigdís Häsler að lokum.