„Það eru náttúrlega fleiri en eitt landeldisfyrirtæki í uppbyggingu núna og það er eðlilegt að þessi fyrirtæki skoði það saman að finna sameiginlegar lausnir í staðinn fyrir að vera hvert í sínu horni,“ segir Jens Þórðarson, framkvæmdastjóri GeoSalmo, um þróun lausna til að nýta hliðarafurðir úr laxeldi.
Ýmsir möguleikar eru á ýtingu þess sem til fellur í laxeldinu.
„Langstærsta málið er hvað þú gerir við fiskimykjuna; það sem er síað frá í frárennslinu. Það eru margar leiðir í því,“ segir Jens um viðfangsefnin á þessu sviði.
„Það er hægt að þurrka fiskimykjuna og nota beint í áburð og það er líka hægt að nota hana sem lífgas eða þá í að þróa það sem heitir lífkol sem er efni sem getur haft mjög fjölbreytt notagildi, til dæmis sem íblöndunarefni fyrir áburð. Það er vara sem við höfum að undanförnu verið að þróa meira og erum með góða samstarfsaðila. Þetta er mjög spennandi,“ segir Jens.
Samtal við hin fyrirtækin
Samstarf eldisfyrirtækjanna á þessu sviði segir Jens einfaldlega myndu verða hagkvæmara fyrir þau og leiða til þess að þau geti gert meira úr hliðarafurðunum. „Og vonandi getum við búið til sjálfstæða framleiðslu svo þetta verði tekjupóstur þótt við gerum svo ekki ráð fyrir meiru í okkar plönum en að þetta komi út á sléttu. Við eigum í ágætis samtali við hin fyrirtækin á frekar breiðum grunni og þetta er klárlega eitt af þeim atriðum sem er hvað augljósasti samstarfsflötur í,“ segir Jens.
Grunnreksturinn hjá GeoSalmo er þó laxeldið sjálft sem Jens segir vera stórt og yfirgripsmikið verkefni sem vel þurfi að huga að. „Við höfum því verið að þróast meira að því að nota samstarfsaðila og sækja styrki og annað sem tengist þessum hliðarafurðum. Það hefur verið mjög skemmtilegt og gefið okkur færi á að þróa þetta töluvert mikið áfram,“ segir hann.
Framkvæmdir við seiðaeldisstöð
Landeldi GeoSalmo í Þorlákshöfn hefur nú verið nokkur ár í burðarliðnum. „Þetta mjakast áfram,“ svarar Jens um ganginn í því.
„Við hugsum þetta aðeins öðru vísi en sumir aðrir og byggjum mjög stóran áfanga mjög hratt í einu lagi. Þannig að við erum aðallega búin að vera fjárfesta í hönnun og undirbúningi,“ segir Jens. Framkvæmdir séu hafnar við seiðaeldisstöð og búið sé að hanna fiskeldisstöðina. Fyrirtækið sé nú í fjármögnunarferli vegna byggingar fyrsta áfangans í Þorlákshöfn sem sé 7.800 tonn. Ýmis ljón hafi verið í veginum.
Fjármálamarkaðir lifna
„Það hefur teygst aðeins á þessu, kannski fyrst og fremst út af því að leyfisferli og skipulagsferli tekur lengri tíma heldur en maður í bjartsýni sinni vill og ætlar sér. Síðan hefur verið tiltölulega þung staða á fjármálamörkuðum og það auðvitað hægir á svona verkefnum en við finnum að það er að léttast allvel yfir svo það er allt á leið í rétta átt,“ segir Jens.
Talsverð umræða hefur verið síðustu misseri um kosti og galla landeldis annars vegar og sjókvíaeldis hins vegar út frá umhverfissjónarmiðum. Jens segir GeoSalmo ekki sjá landeldi sem eitthvað sem leysi sjókvíaeldi af hólmi heldur sem viðbót á ört stækkandi markaði.
Eldisaðferðin ræður ekki úrslitum um sölu
„Við erum við að fara að framleiða á mjög ábyrgan hátt gagnvart umhverfinu og ég held að eftir því sé vel tekið. En það er ekki úrslitaatriði fyrir söluna á vörunni. Við erum að selja inn á risastóran heimsmarkað fyrir lax sem er bæði sjó- og landlax og það eru engar væntingar um að það verði gerður svakalegur greinarmunur þar á þegar komið er út í hinn stóra heim,“ segir Jens. Í það heila tekið sé gríðarleg mikil aukning í eftirspurn eftir laxi.
„Yfir langan tíma, í yfir þrjátíu ár, hefur lax verið að vaxa á heimsvísu og sér svo sem ekkert fyrir endann á því. Þetta er vara sem er orðin þekkt í nánast öllum heimshlutum. Framboðið hefur ekki haldið í við eftirspurnina og það þýðir að við erum að koma inn á fínum tíma.“