Það er víðar en á Íslandi sem hart er deilt um málefni tengd sjávarútvegi. Fyrir chileska þinginu verður senn lagt fram stjórnarfrumvarp um endurúthlutun kvóta með tilheyrandi breytingum á núgildandi fiskveiðistjórnunarlögum, það sem ríkisstjórnin kallar „leiðréttingu á sögulegum mistökum“. Ríkisstjórnin kveðst þurfa að fást við spillingu innan greinarinnar, ofveiði og sniðgöngu á rétti samfélaga frumbyggja til veiða.
Frumvarpið hefur vakið upp miklar deilur innan sjávarútvegs í Chile og víða fallið í grýttan jarðveg, jafnt meðal eigenda stórra útgerða og smábátaútgerða. Stóru útgerðirnar segja afkomu veiða og vinnslu ógnað stórlega en smábátaútgerðir að þeir hefðu vænst enn meiri kvótaaukningar en stefnt er að í frumvarpinu. Núgildandi fiskveiðistjórnunarlög í landinu tóku gildi 2013 og eiga að gilda til 2032. Þau færðu örfáum stórum einkaútgerðum yfirráð yfir miklum meirihluta sjávarauðlinda í Chile. Fjöldi þingmanna var sakaður um að þiggja mútur gegn því að samþykkja lögin og var mikið fjallað um það á sínum tíma sem „Copesca-málið“ sem er vísun í eitt af stóru útgerðarfyrirtækjunum sem högnuðust á lagasetningunni.
Meira til smábátaútgerðar
Nýja frumvarpið miðar að því að minnka kvóta sem úthlutað er til stórútgerða og auka kvóta til smábátaútgerða. Smábátasjómenn hafa sýnt reiði sína með drætti sem hefur orðið á málinu og vilja stærri hlut í heildarkvótanum en þeim er ætlaður. Reiðin hefur brotist út í ofbeldisfullum mótmælum fyrir framan þinghúsið í höfuðborginni Santiago og nokkrum öðrum borgum í Chile. Stórútgerðir fullyrða að til standi að breyta kvótakerfinu á ósanngjarnan hátt og telja að ekki verði komist hjá fækkun skipa og fjöldauppsögnum. Nú þegar hefur ein þessara útgerða, PacificBlu, tilkynnt að það muni að óbreyttu hætta starfsemi 1. janúar 2026 vegna fyrirhugaðrar kvótaskerðingar. Það myndi hafa áhrif á 3.000 bein og afleidd störf. Samkvæmt núgildandi lögum fara 60% kvótans af lýsing til stórútgerðarinnar, 80% af smokkfiski og 90% af hrossamakríl, svo dæmi séu tekin.
Drög að frumvarpi til breytinga voru samþykkt í neðri deild chileska þingsins í október á síðasta ári og var þar gert ráð fyrir miklum tilflutningi aflaheimilda til smábátaútgerðar. Frumvarpið er nú til meðferðar í efri deild þingsins.