Aflahæsta skipið á nýliðnu fiskveiðiári var Vilhelm Þorsteinsson EA. Tólf smábátar veiddu meira en eitt þúsund tonn hver, að því er fram kemur í samantekt í nýjustu Fiskifréttum.
Vilhelm Þorsteinsson EA er jafnframt aflahæsta uppsjávarskipið og var skipið með um 44 þúsund tonna afla. Næst á eftir kemur Börkur NK með rúm 40 þúsund tonn. Um er að ræða samanlagðan afla á nýja og gamla Berki á fiskveiðiárinu.
Í flokki bolfisktogara, bæði ísfisktogara og frystitogara, varð flakafrystitogarinn Kleifaberg RE aflahæsta skipið með um 11.800 tonn.
Í bátaflokknum, þ.e. í flokki skipa með aflamark önnur en uppsjávarskip, varð togbáturinn Frosti ÞH með mestan afla um 4.400 tonn.
Tólf smábátar náðu að fiska yfir eitt þúsund tonn hver á nýliðnu fiskveiðiári. Að þessu sinni veiddi Fríða Dagmar ÍS mest eða rúm 1.400 tonn.
Loks er að nefna smábáta með aflamark en Bárður SH ber höfuð og herðar yfir aðra báta í þessum flokki eins og svo oft áður. Bárður SH veiddi tæp þúsund tonn á nýliðnu fiskveiðiári.
Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.