Vilhelm Þorsteinsson EA, uppsjávarskip Samherja, skilaði langmestu aflaverðmæti íslenska fiskiskipaflotans á nýliðnu ári. Hann fiskaði fyrir 3.410 milljónir króna og bætti verðmæti sitt um 9% milli ára. Næstur í röðinni varð frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE með 2.642 milljónir í aflaverðmæti og í þriðja sæti var frystitogarinn Kleifaberg RE með 2.511 milljónir króna, en Brim gerir bæði skipin út.

Almennt dróst aflaverðmæti efstu skipa verulega saman milli áranna 2015 og 2016, annars vegar vegna styrkingar íslensku krónunnar og hins vegar vegna loðnubrests og lokunar Rússlandsmarkaðar fyrir uppsjávarafurðir.

Í árlegri samantekt Fiskifrétta, sem birt er í blaðinu, kemur fram að níu skip hafi fiskað yfir tvö milljarða hvert á síðasta ári en sautján skip náðu þeim árangri árið 2015. Í mörgum tilfellum er samdráttur aflaverðmæta á milli 20 og 30%.

Sjá nánar um aflaverðmæti sautján efstu skipa í Fiskifréttum sem komu út í dag .