Vigri RE, frystitogari Brims hf., landaði í byrjun vikunnar um 800 tonn af fiski upp úr sjó að verðmæti 418 milljónir króna eftir 25 daga túr. Þetta var síðasti túrinn áður en Vigri fer í slipp um næstu mánaðamót.

„Þetta var fínn túr. Ef ég man rétt þá voru þetta um 800 tonn af fiski upp úr sjó að verðmæti 418 milljóna króna. Við vorum með mest af ufsa, þá ýsu og loks þorski. Við reyndum að sneiða hjá gullkarfanum en hann þvældist alls staðar fyrir og kom með sem aukaafli,” sagði Eyþór A. Scott, skipstjóri á frystitogaranum Vigra RE í samtali við heimasíðu Brims. Skipið kom til hafnar í Reykjavík sl. föstudag eftir 25 daga túr.

Eyþór segist hafa byrjað á Fjöllunum hér syðra og tekið þar tvö hol. Hið sama gilti um Skerjadjúp en markmiðið var að leita að ufsa og bíða frekari fregna frá útgerðinni um það sem mætti veiða.

Millilönduðu 500 tonnum

,,Þegar það lá fyrir þá fórum við norður á Látragrunn. Markmiðið var að veiða ýsu og þorsk fyrir kvótaáramótin og svo auðvitað ufsa. Á Látragrunninu var ýsa. Við toguðum mest á um 50 faðma dýpi en á það grunnu er lítil hætta að fá aðrar tegundir með ýsunni. Við millilönduðum um 500 tonnum af fiski upp úr sjó en fórum svo aftur til veiða,” segir Eyþór.

Seinni hluti veiðiferðarinnar fór m.a. fram á Deildargrunni, Kögurgrunni og Halanum og Eyþóri og hans mönnum tókst að bæta við um 300 tonnum við aflann.

,,Mestur vandinn var að sneiða hjá gullkarfanum á Halanum en í heildina blessaðist það allt. Þegar á heildina er litið vorum við að fá um fjögur til sex tonn í holi, eða gott tonn og upp í hálft annað tonn á togtíman. Það var rjómablíða allan túrinn og það munar um minna,” sagði Eyþór A. Scott.

Yfirstandandi veiðiferð er sú síðasta í bili hjá Vigra því skipið á bókaðan tíma í slipp um næstu mánaðamót. Fyrir liggur að m.a. verður skipt um kælimiðil en Vigri á að vera klár í byrjun desember nk.